Lokaorðið - Samtalshegðun Íslendinga.
Þegar ég fylgist með samtölum manna á meðal og umfjöllun fjölmiðla um málefni samfélagsins get ég ekki varist þeirri hugsun að við Íslendingar höfum umtalsvert svigrúm til framfara hvað hvað varðar samskipti siðaðra manna.
Maðurinn eða hugmyndin.
Hið mannlega samfélag þróast stöðugt. Það útheimtir samfellt samtal um það hvernig við viljum standa að því að laga innviði og lagaumhverfi að þeim breytingum sem orðið hafa. Samtalið gerir hvorttveggja að laða fram hugmyndir og móta á grundvelli þeirra leiðina sem við viljum fara inn í framtíðina, samfélaginu til heilla.
Á undanförnum árum höfum við því miður vanið okkur á hávaðasama og óvægna umræðu. Það væri ef til vill gott og nauðsynlegt þegar í hlut eiga hugmyndir sem eru andstæðar manngildi og siðferði. En því miður höfum við í sífellt minna mæli beint hinni hávaðasömu og óvægnu umræðu að hugmyndunum en þess í stað beint henni að einstaklingunum sem setja fram. Sú aðferð skilar okkur ekki betra samfélagi. Ef við erum upptekin af því að fara í manninn en ekki boltann, þá liggur boltinn óhreyfður. Engin mörk verða skoruð og enginn leikur vinnst.
Einkamál opinberra persóna.
Af og til koma upp í opinberri umræðu einkamálefni fólks sem tekið hefur að sér trúnaðarstörf fyrir almenning. Það liggur í eðli stjórnmála í lýðræðisríki að viðbrögð við slíku ráðast ekki endilega af því hvort hlutaðeigandi stjórnmálamaður hafi brotið lög. Leikreglur stjórnmálanna lúta skoðunum almennings hverju sinni og þær kristallast í samtali þjóðarinnar um málið. Siðuð þjóð gætir þess hins vegar að halda slíku samtali innan þeirra siðferðislegu marka sem eiga við þegar um er að ræða viðkvæm persónuleg málefni sem kunna að snerta einstaklinga sem ekki áttu hlut að máli og eru heldur ekki þátttakendur í stjórnmálum. Og það sæmir ekki að halda áfram umræðu um slík mál eftir að hlutaðeigandi stjórnmálamaður hefur stigið til hliðar. Áframhaldandi umræða þjónar engum tilgangi sem sæmd getur verið að.
Mál að linni.
Við skulum halda áfram að nýta svigrúm okkar til framfara á öllum sviðum. Við skulum ekki ógna fólki með persónulegum árásum og fæla það og aðra þannig frá því að viðra
skoðanir sínar. Við skulum halda okkur við efnið. Við náum engum árangri með því að skattyrða Trump, Snorra Másson, Kristrúnu Frostadóttur, Ingu Sæland eða nokkur annan einstakling lífs eða liðinn. Árangri náum við aðeinst með því að láta hugmyndir þeirra herðast í eldi rökræðunnar og láta umræðuna kalla fram bestu niðurstöðuna. Hættum að níða fólk niður og höldum okkur við efnið. Getum við ekki öll verið sammála um það?