Vel heppnað málþing um Eflingu byggðar á Norðausturhorninu
Í gær, 3. apríl héldu SSNE og Austurbrú málþing á Þórshöfn undir merkjum Eflingar byggðar á Norðausturhorninu - orka - náttúra - ferðaþjónusta, en málþingið var styrkt af Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu.
Málþingið var þrískipt eftir málefnum: Norðausturhornið og hringrás ferðamanna um Austur- og Norðurland; Orkumál og atvinnuþróun; og Hagræn tengsl náttúruverndar og byggðaþróunar. Fundurinn var mjög vel sóttur og ríflega 60 manns mættir til að ræða þessi mikilvægu málefni, auk þeirra sem fylgdust með í streymi. Undir hverju málefni voru flutt 4-5 stutt erindi en í kjölfarið fóru fram pallborðsumræður og spurningar úr sal bornar upp.
Á málþinginun kom m.a. fram mikill áhugi heimamanna um tengsl náttúru, nýtingar og náttúruverndar. Þá fór Þorkell Lindberg, forstöðumaður Náttúrustofu Norðausturlands, yfir hugmyndir starfshóps um stofnun starfsstöðvar í náttúrurannsóknum á Bakkafirði, en vistkerfi þess svæðis eru með því minnst rannsakaða á Íslandi. Tillögur hópsins verða kynntar umhverfisráðherra eftir frekara samráðsferli við íbúa og hagaðila. Eins mátti greina, bæði meðal frummælenda og ráðstefnugesta, vaxandi áhuga á að nýta betur tækifæri svæðisins í ferðaþjónustu og vinna markvissar að sameiginlegum markmiðum þvert á sveitarfélög.
Að endingu bárust ánægjuleg tíðindi af orkumálum landshlutans. Hjá Landsneti er hafin forkönnun á nýjum afhendingarstað raforku í Langanesbyggð á 132 kV spennu. Slík framkvæmd væri öflugt framlag til orkuskipta á svæðinu en ekki síður liður í að tvítengja bæði Langanesbyggð og Vopnafjörð við flutningskerfið og þar með myndi orkuöryggi á þessum svæðum aukast verulega.