Eðlilegt að viðskiptavinir viti hvaðan maturinn kemur

BSE hvetur veitingageirann til að geta uppruna landbúnaðarvara á matseðli sínum
BSE hvetur veitingageirann til að geta uppruna landbúnaðarvara á matseðli sínum

„Það er eðlilegt að viðskiptavinir veitingastaðanna viti hver uppruni þess matar sem þeir kaupa og borða er, en á því hefur verið talsverður misbrestur,” segir Sigurgeir Hreinsson framkvæmdastjóri Búnaðarsambands Eyjafjarðar. Sambandið hefur hvatt félagsmenn í Samtökum fyrirtækja á veitingamarkaði að geta uppruna þeirra landbúnaðarvara sem þeir bjóða upp á matseðlum sínum.

Sigurgeir segir að miðað við umræðu síðustu daga virðist sem veitingageirinn noti ansi mikið innfluttar landbúnaðarvörur í sína rétt án þess að viðskiptavinir séu upplýstir um það nema þá að spyrja sérstaklega. Jafnvel þá séu ekki allir til í að gefa réttar upplýsingar. „Það er hóflegur áhugi virðist vera að upplýsa viðskiptavini um upprunaland vörunnar, en okkur þykir það bara sjálfsagt að neytendur viti hvaðan hráefnið kemur,“ segir Sigurgeir. Hann bætir við að skýlalyfjanotkun  í íslenskum landbúnaði sé með allra minnsta móti í heiminum og það sama gildi um eiturefna notkun.

Snýst um að neytendur séu upplýstir

„Það er margt úrvalsgott sem kemur frá útlöndum, þetta snýst ekki um það heldur einungis að neytendur viti hvað þeir eru að borða kjósi þeir það,“ segir Sigurgeir. Hann bendir á t.d. í Svíþjóð og fleiri löndum sé innlendri vöru gjarnan hampað á kostnað innfluttrar, en sú hefð hafi ekki í sama mæli skapast hér á landi. „Það er eins og margir veitingamenn séu ekki spenntir að ræða hvaðan það hráefni kemur sem þeir eru að höndla með.“

Nýjast