Graskögglaverksmiðja í burðarliðnum

Gras af 4 þúsund hekturum gefur um 20 þúsund tonn af kögglum
Gras af 4 þúsund hekturum gefur um 20 þúsund tonn af kögglum

„Næsta skref er að stofna félagið formlega og það verður gert fljótlega eftir páska. Eins erum við að hefja leit að fjárfestum til að taka þátt í þessu með okkur,“ segir Haukur Marteinsson formaður Búnaðarsambands Suður-Þingeyinga en félagið ásamt Fjárfestingafélagi Þingeyinga kynnti áform um þurrkstöð við Húsavík á fjárfestingahátíð Norðanáttar sem fram fór á Siglufirði á dögunum. Þurrkstöðinni við Húsavík mun auk þess að framleiða grasköggla, þurrka korn og eins er ætlunin að þurrka grisjunarvið og framleiða m.a. undirburð.

 BSSÞ hefur kynnt verkefnið undanfarið og segir Haukur að áhugi sé mikill. „Við erum bjartsýn á að þetta muni ganga upp.“ Verkefnið gengur í stórum dráttum út á að framleiða grasköggla og nýta til þess jarðvarma frá Hveravöllum í Reykjahverfi. Markmiðið er að safna 100 til 200 milljónum króna í upphafi svo hægt sé að hefja undirbúning af krafti. Stefnt er að því að reisa þurrkstöðina sjálfa á næsta ári.

Haukur segir að áform BSSÞ gangi út á að nýta jarðvarmann við Hveravelli í Reykjahverfi og hafi í fyrstu verið horft til þess að reisa þar um 1400 fermetra mannvirki ásamt sílóum. Frá Hveravöllum liggur stofnlögn til Húsavíkur og segir hann að nú sé horft til þess að reisa þurrkstöðina á iðnaðarlóð við suðurhluta bæjarins. Verksmiðjan verði að vera á öðrum hvorum enda stofnlagnarinnar og sé nú talið að heppilegra staðarval sé við Húsavík.

Nýta glatvarma til að þurrka grasið

Um stofnlögnina rennur 120 gráðu heitt vatn og er það kælt niður áður en því er dælt inn á húsvísk heimili. „Það fallega í þessu dæmi er að við þurrkun á grasinu verður nýttur glatvarmi, sá varmi sem verður til við að kæla vatnið úr 120 gráður niður í 80 gráður,“ segir Haukur.

Nú í sumar verða gerðar tilraunir með að fóðra kýr á tveimur bæjum með graskögglum og tekur Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri þátt í rannsókn með bændunum en niðurstaða ætti að vera ljós næsta haust.

Kostnaður um 2-3 milljarðar

Kostnaður við að reisa þurrkstöðina er talin nema á bilinu tveimur til þremur milljörðum króna og áætlanir sem fyrir liggja gera ráð fyrir að tekjur eftir 5 ár verði um 600 milljónir króna. Tvö til þrjú störf við á stöðinni, en fjöldinn allur af afleiddum störfum í tengslum við starfsemina.

Haukur segir að áætlanir geri ráð fyrir að framleiðslan nemi um 20 þúsund tonnum innan fárra ára og þurfi gras af um það bil 4 þúsund hekturum af ræktuðu landi til hennar. „Við höfum nægt land hér um slóðir til þessar framleiðslu en um 90% af ræktarlandi sem til þarf er til reiðu.

Markaðssvæðið fyrir grasköggla frá þurrkstöðinni verður í fyrstu Norðurausturlandið.

 

Nýjast