Síldarvinnslan hf. kaupir helmingshlut í Ice Fresh Seafood ehf.
Samherji og Síldarvinnslan hafa gengið frá kaupum þess síðarnefnda á helmingshlut í sölufyrirtækinu Ice Fresh Seafood en með því lýkur viðræðum sem fyrst var tilkynnt um í lok mars á þessu ári.
Verðmæti Ice Fresh Seafood í viðskiptunum er metið 42,9 milljónir evra sem jafngildir 1,76 sinnum bókfært virði eigin fjár þess hinn 31. desember 2022. Viðskiptin felast annars vegar í kaupum á núverandi hlutum af Samherja hf. fyrir 10,7 milljónir evra, og hins vegar útgáfu nýs hlutafjár í Ice Fresh Seafood að fjárhæð 21,5 milljónir evra. Heildarvirði Ice Fresh Seafood verður 64,4 milljónir evra eftir hlutafjáraukninguna og fjárfesting Síldarvinnslunnar nemur 32,2 milljónum evra.