Hafnasamlag Norðurlands Fjármunir nýttir í uppbyggingu innviða

Þrátt fyrir talsverða aukningu í skipakomum hafa engir áberandi hnökrar orðið í þjónustunni við skip…
Þrátt fyrir talsverða aukningu í skipakomum hafa engir áberandi hnökrar orðið í þjónustunni við skipin og innviðir, sem þola álag vel og hafa verið vel nýttir. Mynd MÞÞ

Skemmtiferðaskip sem hafa viðkomu hér á landi skilja eftir sig um 30 milljarða króna.  Áætlað er að tekjur Hafnasamlags Norðurlands af komum skemmtiferðaskipa nú í sumar fari yfir 800 milljónir króna en það er yfir 300 milljón króna aukning milli ára. Þessir fjármunir nýtast vel til að byggja upp sterkari innviði, svo sem varðandi rafvæðingu og Torfunefssvæðið. En það er ekki aðeins HN sem nýtur góðs af komum skipanna, reikna má með að þau skilji eftir sig um það bil 810 milljarða inn í hagkerfi svæðisins. Fjöldi fólks, einhver hundruð hafa atvinnu af því að þjónusta skipin þannig að segja má að um sé að ræða hálfgerða stóriðju fyrir svæðið hér um kring.

 

Metfjöldi skipa hefur viðkomu á höfnum HN, alls 279 skip, þar af koma 217 til Akureyrar, 7 til Hríseyjar, 54 til Grímseyjar og í fyrsta skipti kom skip til Hjalteyrar en það var skemmtiferðaskipið Sylvia Earl. Þrátt fyrir talsverða aukningu í skipakomum hafa engir áberandi hnökrar orðið í þjónustunni við skipin og innviðir, sem þola álag vel, hafa verið vel nýttir að því er fram kemur í minnisblaði hafnarstjóra.

Fjölgun var á komum skemmtiferðaskipa í sumar og hafa verið viðraðar áhyggjur af því að sú  fjölgun haldi áfram. Pétur segir mikilvægt að fram komi að ekki sé búist við miklum vexti á næsta ári.  Ástæða þessa mikla vaxtar í komum skemmtiferðaskipa er þríþætt. Stríðið í Úkraínu, fleiri farþegaskipti og þá er Ísland mjög vinsæll staður og ferðir þangað seljast mjög vel.

Fram kemur hjá Pétri að á það beri að líta að hlutfall skiptifarþega er að aukast sem eru góð tíðindi þar sem farþegaskipti auka tekjur umtalsvert ásamt því að festa Ísland enn frekar í sessi sem mikilvægan áfangastað skemmtiferðaskipa. Sú reynsla sem hefur fengist af skipakomum í sumar sýnir að vel gengur að taka á móti núverandi fjöldi skipa með tilliti til álags á innviði.

Gríðarleg innviðauppbygging fyrirhuguð

Hann segir að á komandi árum sé gríðarleg innviðauppbygging fyrirhuguð og sé hún að stórum hluta byggð á tekjum af skemmtiferðaskipum. Allt að 700 milljónir króna eru á framkvæmdaáætlun á Akureyri fyrir árið 2023, þar sem þungamiðjan er rafvæðing skemmtiferðaskipa ásamt þeirri  uppbyggingu sem er í gangi á Torfunefi. „Slík uppbygging verður ekki framkvæmanleg nema með áframhaldandi komum skemmtiferðaskipa til hafna HN,“ segir í minniblaði hafnarstjóra.

Verið er að þróa bókunarkerfi með það fyrir augum að rýna betur í álagsdreifingu á hafnar niður á hvern dag þannig að hægt verði að vinna út frá æskilegum fjölda skipa og hámarksfjölda farþega hverrar hafnar. Ýmislegt má enn bæta í þeim efnum. Í haust og vetur stendur til að funda með hagaðilum og kanna hvað betur má fara á hverjum stað, en fram kemur í minnisblaðinu að í sumar hafi upplifun íbúa af komum skemmtiferðaskipa á flestum stöðum verið jákvæð.  „Flestum er líklega ljóst að gagnrýni á ferðamenn er sjaldnast sanngjörn, sérstaklega ef hún á að snúa eingöngu að þeim sem koma með skemmtiferðaskipum sem þó telja líklega í mesta lagi um 20% heildarinnar. Í þessu sambandi skiptir líka miklu máli að Íslendingar sjálfir eru miklir ferðamenn og vilja að sjálfsögðu að vel sé tekið á móti þeim þegar þeir leggja land undir fót, hvort sem farið er á áfangastaðinn með flugi eða skipi.“ 

Umhverfismál til umræðu

Pétur kemur inn á umhverfismál og segir að umræða þar um hafi verið meiri á Akureyri nú í sumar en áður. Helstu ástæðu þess megi rekja til óheppilegrar bilunar í katli á skipinu Zuiderdam sem kom til Akureyrar í byrjun júlí. Það hafi verið slæmt tilvik og sjónmengun mikil. Skipafélagið sendi út tilkynningu og baðst afsökunar. Allt reyndist innan laga og reglna hjá skipinu við könnun fulltrúa Umhverfisstofnunar sem fram fór í Reykjavík daginn eftir.

Pétur nefnir í minnisblaði sínu til bæjarráðs að rætt hafi verið all lengi um nauðsyn þess að opna fleiri gáttir inn í landið og dreifa ferðamönnum betur með það að markmiði að dreifa álagi. Enginn ferðamáti sé betur til þess fallin en skemmtiferðaskip að sinna þessu markmiði.

Í ár munu yfir 30 hafnir allt í kringum landið fá skemmtiferðaskip til sín. Þetta hefur margvísleg ruðningsáhrif á hverju svæði fyrir sig, ekki bara þau að styrkja fjárhagslega getu hvers hafnarsjóðs. Heldur gerir þetta það að verkum að minnka líkur á fjárhagslegu inngripi sveitasjóða vegna slæms rekstur viðkomandi hafnar. Fegrun hafnasvæða er einnig áberandi vegna þessa því allir eru meðvitaðir um það að hafa nærumhverfið eins fallegt og snyrtilegt og kostur er þegar gesti ber að garði.

Nýjast