Dalvíkurbyggð og Rauði krossinn á Eyjafjarðarsvæðinu gera með sér samning um söfnun, flokkun og sölu á textíl

Samkvæmt nýjum lögum er sveitarfélögum nú skylt að halda úti sérstakri söfnun á textíl. Dalvíkurbyggð hefur komist að samkomulagi við Rauða krossinn við Eyjafjörð um söfnun, flokkun og sölu á textíl. Á dögunum var formlega gengið frá samningi við Rauða krossinn.
Rauði krossinn við Eyjafjörð hefur um árabil séð um að safna textíl á svæðinu, flokka, selja og senda erlendis til frekari endurvinnslu. Með lögunum hefur ábyrgðin verið færð yfir á sveitarfélögin að sjá til þess að textíl sé safnað og hann endurnýttur eftir bestu getu.
Rauði krossinn við Eyjafjörð sendir árlega um 150-170 tonn erlendis til endurvinnslu. Ekki eru til nákvæmar tölur um heildarmagn textíls sem safnað er af Eyjafjarðarsvæðinu, en það má ætla að sú tala sé ívið hærri.
Fataverkefni Rauða krossins við Eyjafjörð er öflugt umhverfisverkefni sem stuðlar að sjálfbærri auðlindanýtingu með áherslu á endurnýtingu og endurvinnslu. Fyrir utan allan þann fatnað sem er seldur í verslunum félagsins tekur Eyjafjarðardeild virkan og öflugan þátt í verkefnum nærsamfélagsins sem stuðla að því að draga úr sóun.
Það er bæði sveitarfélaginu og Rauða krossinum í hag að halda áfram söfnun og flokkun textíls á þennan hátt og draga þannig úr því magni sem flytja þarf út til förgunar.
Textílsöfnunargámar í Dalvíkurbyggð eru staðsettir á Gámasvæði við Sandskeið og neðan við húsnæði Rauða krossins við Martröð.
Frá þessu er fyrst sagt á www.dalvikurbyggd.is