Mér leiðist aldrei

Hermann Sigtryggsson, Mynd Ragnar Hólm/Akureyri.is
Hermann Sigtryggsson, Mynd Ragnar Hólm/Akureyri.is

Nú þegar Andrésar Andar vikan er hafin er hreint ekki úr vegi að birta hér viðtal sem Indíana Hreinsdóttir tók við Hermann Sigtryggsson fyrrum íþróttafulltrúa og móttökustjóra Akureyrar fyrir vef Akureyrarbæjar undir liðnum Akureyringur vikunnar. Hermann sem er einn að upphafsmönnum Andrésar leikanna, er 94 ára gamall en fylgist afar vel með öllu sem fram og er virkur.

Fyrstu Andrésar Andar leikarnir fóru fram árið 1976, en upphafið nær aftur til ársins 1973 þegar nokkrir menn komu saman á kaffistofu Almennra trygginga í Hafnarstrætinu. Þetta voru þeir Ólafur Stefánsson forstjóri, Leifur Tómasson stórkaupmaður, Róbert Friðriksson skrifstofustjóri, Hermann Sigtryggsson æskulýðs- og íþróttafulltrúi Akureyrarbæjar, Ívar Sigmundsson forstöðumaður Skíðastaða og Frímann Gunnlaugsson verslunareigandi, en allir deildu þeir einlægum áhuga á skíðaíþróttinni.

Hermann er að vonum stoltur af Andrésar Andarleikunum. „Maður getur ekki annað. Mótið varð strax vinsælt enda var ekki kastað til höndunum í undirbúningnum. Fyrstu leikarnir tókust vel og urðu vinsælir svo ákveðið var að halda þeim áfram. Ég hef verið heppinn að fá að vinna við þetta áhugamál mitt og kynnst mörgu góðu fólki í gegnum starfið. Vanalega fer ég upp í fjall til að fylgjast með leikunum en það fer nú að breytast. Ég hætti sjálfur að skíða árið 2010 þegar konan mín veiktist. Þá tók ég að mér heimilið og umönnun hennar,“ segir Hermann en eiginkona hans, Rebekka H. Guðmann, lést árið 2015.

Hann segir snjóleysið í Hlíðarfjalli í vetur ekki einsdæmi. „Það hafa komið vetur sem voru snjólausir fram eftir öllu svo við þurftum að hætta við leikana. Maður horfir alltaf til fjalls og vonar það besta. Það er alltaf spenningur í mér á þessum tíma og í gegnum Andrés hef ég eignast kunningja fyrir lífstíð.“

Hann segir aðstöðuna í Hlíðarfjalli hafa tekið miklum breytingum á síðustu áratugum. „Ég var í hópi þeirra sem fóru til Evrópu að kaupa fyrstu stólalyftuna. Við enduðum á því að kaupa Doppelmayr lyftu í Austurríki – og flestar lyfturnar síðan hafa verið þaðan. Sjálfur var ég aldrei verið mikill skíðamaður en ég naut þess að vera í kringum skíðin og mótahald – það var minn heimur.“

Íþróttir hafa átt stóran sess í lífi Hermanns. „Ég var alltaf á kafi í íþróttum, alveg frá því ég man eftir mér. Báðar dætur mínar eru íþróttakennarar, svo þetta smitaðist yfir á næstu kynslóð. Kannski bitnaði þetta bras helst á konunni minni, því ég var mikið að ferðast með hópa um allan heim,“ segir Hermann sem hóf störf við íþróttakennslu hjá UMSE aðeins 17 ára og var virkur í félags-, æskulýðs- og íþróttamálum alla tíð.

Frá árinu 1963 til 1996 sinnti Hermann starfi íþrótta- og tómstundafulltrúa Akureyrarbæjar. Gallharði KA-maðurinn varð því að víkka sjóndeildarhringinn. „Ég var formaður KA um tíma en embættið gerði það að verkum að ég þurfti að losa mig úr þeim böndum. Ég hef líka aldrei verið heiftugur gagnvart öðrum félögum og barnabörnin mín hafa verið bæði í KA og Þór,“ segir hann og brosir.

Hermann sinnti einnig starfi móttökustjóra bæjarins um árabil. „Þegar erlendir þjóðhöfðingjar komu til Akureyrar tók ég á móti þeim. Þar má nefna Ólaf Noregskonung, frú Vigdísi Finnbogadóttur, Margréti Danadrottningu og fleiri. Þetta var allt indælisfólk sem kenndi mér margt.“

Þrátt fyrir háan aldur er Hermann ótrúlega ern. Aðspurður um leyndarmálið hlær hann. „Ég hef alltaf lifað heilsusamlegu lífi og hef aldrei reykt. Áfengið hefur heldur aldrei háð mér, þótt maður hafi tekið einn og einn drykk með þessum erlendu höfðingjum sem heimsóttu okkur. Heilsan hefur hins vegar ekki verið upp á marga fiska eftir að ég fékk COVID. Ég verð stundum aðeins framlágur en vona að það lagist. Það sem gerir mér gott er að hreyfa mig og vera á meðal fólks. Ég fer tvisvar í viku á Hlíð og nýt þess að hitta fólkið þar.

Ég geng líka daglega um pallinn heima, sérstaklega þegar sólin er farin að hækka á lofti. Svo hef ég gaman af því að smíða og er með verkstæði í bílskúrnum.

Mér leiðist aldrei.“

Nýjast