Stúdentar við HA sigurvegarar á hugmyndavinnudegi
Fyrstu stúdentarnir í iðnaðar- og orkutæknifræði við Háskólann á Akureyri, í samstarfi við Háskólann í Reykjavík, hófu nám í ágúst. Í HA hlýða stúdentar á fyrirlestra í beinu streymi á sama tíma og kennsla fer fram í HR. Þá sér aðstoðarkennari um dæmatíma og aðstoðar stúdenta á staðnum í kennslustofu í HA.
Föstudaginn 8. september fór fram námskeiðið Hugmyndavinna sem allir nýstúdentar í tæknifræði taka. „Námskeiðið er ætlað til þess að brjóta upp misserið og að nýnemar í tæknifræði geti kynnst betur. Unnið er í hóp með verkefni þar sem takmarkaðar upplýsingar eru fyrir hendi og þurfa stúdentar að leysa verkefnin með hugmyndaauðgi. Í ár voru hóparnir tíu og tveir þeirra voru skipaðir stúdentum í iðnaðar- og orkutæknifræði við HA. Í lok dags kynntu allir hópar verkefnin sín og jafningjamat fór fram samtímis og kynntu stúdentar HA sín verkefni í gegnum streymi,“ segir Ásthildur Lára Stefánsdóttir, verkefnastjóri tæknifræðikennslu.
Stúdentar þurftu svo sannarlega að vera skapandi þegar kom að því að leysa fjölbreytt verkefni. Hér er dæmi um eitt þeirra verkefna sem stúdentarnir þurftu að leysa: „Þrautin gengur út á að græja ílát sem getur haldið sem mestu magni af vatni í að minnsta kosti 1 mínútu í 0,5 metra hæð án þess að leka. Lágmark vatnsmagn er 0,5 lítrar. Form, gerð og útlit ílátsins er algjörlega frjáls og í ykkar höndum. Einu kröfurnar eru að hún má ekki leka og halda sem mestum vökva.“
Í lok dags voru sigurvegarar kynntir en það voru stúdentar við HA sem báru sigur úr býtum. Í hópnum voru Arnar Logi Þorgilsson, Brynjar Már Halldórsson og Sigrún María Engilbertsdóttir.
Tæknifræðin er komin til að vera á Akureyri
Aðspurður segir Arnar Logi að samvinna og samheldni í hópnum eftir daginn hafi staðið upp úr. Þrátt fyrir að um keppni hafi verið að ræða vildu öll að öllum gengi vel og efldist samheldnin í stúdentahópnum að hans mati. Þá telur hann verkefnavinnu sem þessa nýtast til að efla einstaklinga að vinna í hóp. „Það er nauðsynlegt að vera góður að vinna í hóp. Það skiptir nánast engu máli hvaða leið þú ætlar í lífinu eftir námið, það mun alltaf koma sér vel að læra að vinna í hóp með allskonar fólki“ segir Arnar.
Arnar Logi segir að það sé gaman að vera hluti af fyrsta hópnum sem fer í gegnum námið á Akureyri og vonast hann til að geta haft jákvæð áhrif á þróun námsins. „Mín fyrsta reynsla af náminu er mjög góð. Þrátt fyrir að námið sé kennt í streymi þá eru ótrúlega lítið af vandamálum sem komið hafa upp. Námið sjálft er virkilega skemmtilegt en á sama tíma ákaflega krefjandi. Það sem hjálpar er að hópurinn er lítill en þéttur og stendur vel saman. Einnig erum við með frábæran kennara sem hjálpar okkur þegar á þarf að halda og blæs í okkur sjálfstrausti þegar þess þarf. Ég finn ekki fyrir neinu öðru en að allir sem standa að þessu séu að þessu af heilum hug og ég trúi því að þetta nám sé komið til að vera,“ segir Arnar Logi að lokum.