Ekki löglegt að mismuna fólki eftir tæknikunnáttu

Það leggur ekki í að fara í þá fáu og flóknu gjaldtökustaura sem eru í bænum og hafa jafnvel enga t…
Það leggur ekki í að fara í þá fáu og flóknu gjaldtökustaura sem eru í bænum og hafa jafnvel enga til að skrá bílastæði fyrir sig í Akureyrarappinu, sem er hægt að gera heima í tölvu. Mynd Vbl

„Ástæðan fyrir þessari bókun er að fullorðið fólk, sem ekki er með snjallsíma eða tölvu, hefur sagt frá því að það treystir sér ekki lengur til að fara í miðbæinn. Það leggur ekki í að fara í þá fáu og flóknu gjaldtökustaura sem eru í bænum og hafa jafnvel enga til að skrá bílastæði fyrir sig í Akureyrarappinu, sem er hægt að gera heima í tölvu. Það er mjög bagalegt ef fólk kemst ekki til sýslumanns, í Tryggingastofnun, í banka eða á aðra þá staði, sem eru eingöngu opnir á gjaldtökutíma.,“ segir Hallgrímur Gíslason fulltrúi í öldungaráði á Akureyri.

Í bókun sem samþykkt var á fundi öldungaráðs Akureyrar var fjallað um gjaldskyldu á bílastæðum í miðbænum. „Talið er að yfir 20% þeirra sem eru 67 ára og eldri séu ekki með snjallsíma. Sum þeirra sem eiga slíka síma nota þá aðeins sem síma, en eru ekki með nein öpp í símunum. Þessum einstaklingum er gert ókleift að leggja bifreið í miðbænum vegna gjaldtöku þar,“ segir í bókuninni.

Fram kemur einnig í bókun ráðsins að ekki sé löglegt að mismuna fólki eftir tæknikunnáttu frekar en öðru. Því hafi sú hugmynd komið upp að þeim einstaklingum sem ekki eru með öpp í sínum síma verði gert kleift að leggja í bílastæðin án gjaldtöku.

„Hugsanlega er hægt að ákveða hvort viðkomandi eigi rétt á gjaldfrjálsu stæði eða ekki með því að skrá númer á bílum þeirra. Mögulega einnig spjald í glugga, þar sem kemur fram bílnúmer og að ökumaður sé undanþeginn gjaldskyldu. Sekta þyrfti fyrir hugsanlegri misnotkun,“ segir í bókun öldungaráðs.

Að mörgu þarf að huga

Hallgrímur segir bæjarstjórn hafa tekið vel í bókunina og rætt var um möguleg útfærslu, meðal annars hvort ætti að miða við einhvern sérstakan aldur og þá hvernig. „Aldursviðmið þyrfti trúlega að vera breytilegt, því þótt einhver sem er t.d. 75 ára í dag eigi ekki snjallsíma, er sennilegt að þau sem eru 75 ára eftir fimm ár eigi flest eða öll slíkan síma,“ segir hann. „Við treystum því að málið verði tekið til afgreiðslu hjá bæjaryfirvöldum sem fyrst.“

Málið þarf að fara ákveðna leið og þó það virðist ekki flókið segir Hallgrímur að margt þurfi að hafa í huga og því ljóst að einhvern tíma taki að koma því í framkvæmd. „Hins vegar er ljóst að það verða kosningar á næsta ári, það ætti því að vera keppikefli að koma gjaldfrelsinu í kring á næstu mánuðum.“

Hallgrímur segir bæjarstjórn hafa tekið vel í bókunina og rætt var um möguleg útfærslu, meðal annars hvort ætti að miða við einhvern sérstakan aldur og þá hvernig. „Aldursviðmið þyrfti trúlega að vera breytilegt, því þótt einhver sem er t.d. 75 ára í dag eigi ekki snjallsíma, er sennilegt að þau sem eru 75 ára eftir fimm ár eigi flest eða öll slíkan síma,“ segir hann. „Við treystum því að málið verði tekið til afgreiðslu hjá bæjaryfirvöldum sem fyrst.“

Nýjast