20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Velheppnaður þjóðbúningadagur í Safnasafninu
„Fjöldi fólks mætti og mikil gleði meðal þess,“ segir Níels Hafstein sem rekur Safnasafnið á Svalbarðseyri ásamt eiginkonu sinni Magnhildi Sigurðardóttur og fimm öðrum í stjórn. Í ár var boðið upp á þjóðbúningadag á síðasta degi sumarsýninganna og var hann einkar vel heppnaður.
Á liðnu vori setti Safnasafnið upp á 12 nýjar sýningar á verkum eftir 15 listamenn auk þess sem nemendur í Valsárskóla og leikskólanum Álfaborg tóku þátt. Safnið hefur vakið mikla athygli á liðnum árum og fékk Eyrarrósina árið 2012. Í umsögn dómnefndar sagði:
Safnasafnið vinnu merkilegt frumkvöðlastarf í þágu íslenskrar alþýðulistar og hefur fyrir löngu sannað mikilvægi sitt og sérstöðu. Sýningar þess byggja á nýstárlegri hugsun þar sem alþýðulist og nútímalist mynda fagurfræðilegt samspil. Í sölum Safnasafnsins sýna hlið við hlið frumlegir og ögrandi nútímalistamenn, sjálflærðir alþýðulistamenn, einfarar og börn. Samspil heimilis, garðs, safns og sýningarsala er einstakt og sífellt er bryddað upp á nýjungum.“
Níels segir að sýningar á liðnu sumri hafi vakið athygli og það væri ánægjulegt. Fyrir utan ört vaxandi fjölda gesta koma um 400 gestir á hverju sumri sem vilja ekki missa af sýningunum, þar af um 200 á opnun í maí. „Við höfum rekið safnið frá árinu 1998 og má segja að það hafi ávallt gengið vel. Við fáum til okkar þakklátt fólk,“ segir Níels.“ Mörgum þykir gaman að koma hér við og ég veit til þess að sumir hafa gert sér langa ferð úr öðrum landshlutum, eingöngu til að skoða sýningarnar hjá okkur.“
Safneign hefur vaxið gríðarlega
Þegar þau hjón fluttu norður í landi áttu þau um 1.200 skúlptúra en vel hefur bæst í safneignina því nú eru í henni yfir 150 þúsund gripir. Það er því í ærið mörg horn að líta.
Nú taka við margvísleg verk að sögn Níelsar: „Vetrarstarfið er þegar hafið, taka þarf verkin niður, pakka þeim inn og endursenda til eigenda og dreifa til kaupenda. Þá segir hann að væntanlegar séu þrjár nýjar sýnisbækur fyrir janúarlok, þær er byggðar á úttektum á eigninni. Þá nefnir hann að hafin sé ítarleg rannsókn á íslenskri alþýðulist eins langt aftur í tímann og hægt verður, en tímabilið frá 1901 til 1960 verði tekið fyrir fyrst, með áherslu á fólk sem skreytti fatnað sinn.
Taka þátt í samstarfi erlendis
Níels segir að Safnasafnið taki þátt í innlendu og erlendu samstarfi. Þannig hafi það sent verk á Sequences XI sem haldið verður syðra á næstu vikum og einnig tekur það þátt í tvíæringi í Hollandi sem opnar 7. október. Á næsta ári tekur við sýning í Noregi. „Það er alltaf nóg að gera en þó er enginn fastráðinn starfsmaður hér á safninu,“ segir hann. „Það eru gerðar miklar kröfur til okkar og væntingar í því samstarfi sem við eigum meðal annars við Evrópulönd. Við verðum að standa undir því orðspori sem við höfum skapað okkur.“
Þá segir Níels að framundan sé einnig mikil skráningarvinna, þá fer í gang fjölbreytt starfsemi sem tengist textíldeild safnsins og Stofu Jennýjar Kalsdóttir sem gaf safninu 2.500 textílverk í vor.
Einnig þurfi að undirbúa 12 sýningar fyrir sumarið 2024, þær hafa verið fastsettar og eru í senn nýstárlegar og spennandi. Ég held ég geti lofað að þar verði boðið upp á sitthvað óvænt,“ segir hann.
Myndir Harpa Dögg Benediktsdóttir Hjarðar