SAk Bráðalæknar á vakt í gegnum tölvu
Erfiðlega hefur gengið að fá bráðalækna til starfa á Sjúkrahúsið á Akureyri þrátt fyrir auglýsingar og alls kyns mannaveiðar. Nú eru rúmlega þrjú stöðugildi sérfræðinga við bráðamóttöku setin og til að hafa mannskap í klíníska vinnu 12 klukkustundir á sólarhring fimm daga vikunnar var ákveðið að gera tilraun með fjarvaktir.
Sjúkrahúsið á Akureyri hefur fengið 4 milljónir króna styrk en Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra úthlutaði styrkjum í vikunni á sviði gæða og nýsköpunar í heilbrigðisþjónustu. Alla var úthlutað 55 milljónum króna til 18 verkefna. Hafa öll að markmiði að bæta þjónustu við notendur og stuðla að greiðara aðgengi með stafrænum lausnum.
Bráðalæknir staddur í Bandaríkjunum var á vaktinni
Rúmt hálft ár er síðan gerð var tilraun með að hafa íslenskan bráðalækni í Bandaríkjunum á vakt á SAk í gegnum tölvu. Hann er í myndsambandi við lækna og hjúkrunarfræðinga bráðamóttöku og getur leiðbeint námslæknum um skoðun og mat á sjúklingum, auk þess að taka ákvarðanir um meðferð og afdrif þeirra. Bráðamóttaka SAk hefur hug á að halda áfram með þetta verkefni og reyna að fá fleiri bráðalækna til þátttöku. Ljóst er að fjárfesta þarf í fjarskiptabúnaði sem uppfyllir kröfur Embættis landlæknis um veitingu fjarheilbrigðisþjónustu, auk þess sem um aukinn launakostnað verður að ræða, sem og kostnað við stjórnun verkefnis.
Fyrsta reynsla af störfum bráðalæknisins í Bandaríkjunum er afar góð; almenn ánægja er meðal starfsfólks og sjúklinga. Góð reynsla er hvatning til að þróa verkefnið áfram en markmiðið er að geta mannað helgarvaktir frá kl. 8 til 18 með sérfræðingum.