„Við skulum heldur aldrei gleyma því fornkveðna að sameinaðir stöndum vér, en sundraðir föllum vér"
Mikið fjölmenni er samankomið á hátíðarhöldum stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum sem að þessu sinni fara fram á Fosshótel Húsavík. Hátíðarhöldin hófust kl. 14:00 með því að Ósk Helgadóttir varaformaður Framsýnar flutti barátturæðu dagsins sem lesa má hér að neðan.
Ágætu gestir.
Mig langar að byrja á því að bjóða ykkur hjartanlega velkomin á 1. maí hátíðarhöld stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum. Það er virkilega ánægjulegt að sjá ykkur hér í dag. Kjörorð dagsins er að þessu sinni réttlæti, jöfnuður og velferð, sem er í raun leiðarstefið í allri verkalýðsbaráttu. Dagurinn er ekki bara minningarhátíð um horfna daga, hann er einnig baráttudagur og alþýða manna um heim allan kemur saman til að minna á nauðsyn samstöðu.