Nýleg könnun í Danaveldi sýnir að nær helmingur kennaranema íhugar að hætta

Helga Dögg Sverrisdóttir skrifar

Grunnskólakennarar búa við svipaðan vanda á öllum Norðurlöndunum. Færri sýna kennaramenntuninni áhuga, fleiri fara ekki í kennslu að loknu námi og margir hverfa frá kennslu snemma á starfsferlinum. Margar ástæður liggja þar að baki. Sennilega ekki hægt að benda á neitt ákveðið, þó margt bendi í sömu átt.

Gömul könnun frá sveitarfélögunum hér á landi sýndi að um 40% grunnskólakennara voru tilbúnir að hætta kennslu ef þeir fengju annað starf við hæfi og svipuð laun. Fjórir af hverjum 10 var tilbúinn að hætta. Það hefði átt að hringja viðvörunarbjöllum í samfélaginu. Hefur staðan batnað, það er spurning!

Danir duglegir að kanna stöðu mála

Danir gera margar kannanir og rannsóknir meðal grunnskólakennara. Áhugaverð könnun var gerð var meðal kennaranema í Danmörku. Niðurstöður sýna ógnvænlega þróun, nærri helmingur kennaranema íhuga að hætta í námi. Nú þegar er einn af hverjum fimm sem sinnir kennslu leiðbeinandi, hafa ekki tilskylda menntun til að kenna í grunnskóla.

Staðan hér á landi er áhyggjuefni líkt og í Danaveldi. Mun fleiri leiðbeinendur eru við störf þetta skólaárið og illa hefur gengið að ráða kennara. Þegar skólastarf hófst voru ekki allar kennarastöður mannaðar. Ekki má ráða leiðbeinenda í starf grunnskólakennara nema fá fyrir því undanþágu.

Í Skandinavíu eru menn duglegri að gera kannanir og rannsóknir meðal grunnskólakennara en á Íslandi. Við höfum þar af leiðandi dregið ályktanir að svipað ástand ríki í málefnum grunnskólakennara hér á landi því samfélögin eru um margt lík.

Könnunin með kennaranema í Danmörku

Í könnun nemendafélagsins sem send var á rúmlega 5000 kennaranema svöruðu 43% að þeir íhuguðu að hætta kennaranáminu. Nemana skortir leiðsögn og meiri undirbúningstíma, segir formaður þeirra.

Léleg kennsla í kennaranáminu. Hræðsla við slæma vinnuaðstæður að námi loknu. Efasemdir um hvort framtíðin sé að vera kennari. Þetta voru áherslur í þeim svörum sem flokkast undir almennt eðlis þegar nemarnir voru spurðir af hverju þeir íhuguðu að hætta. Könnunin var gerð í apríl 2023.

Samkvæmt tölum frá dönskum fagháskólum mun vantar rúmlega 13 þúsund kennara árið 2030 og í ár fækkar kennurum enn frekar. Formaður nemanna telur nauðsynlegt að grípa inn í ef snúa á þróuninni við.

,,Ætlum við að leysa kennaraskortinn í Danmörku verðum við að tryggja að nemendur hætti ekki námi áður en þeir eru komnir í starf. Það krefur að þeir fái þann stuðning sem þeir hafa not fyrir, t.d. verður að tryggja leiðsagnakennara í skólanum og hafa undirbúningstímann meiri í upphafi“ segir formaðurinn.

Samkvæmt formanninum eru líka ljósir punktar í könnuninni. Helmingur þátttakenda sagði að æfingakennslan hafi aukið áhuga þeirra á að kenna í grunnskólanum.

,,Æfingakennslan er besti möguleikinn til að æfa sig og þjálfa faglega færni því með nýju kennaramenntuninni hefur æfingakennslan aukist um þriðjung. Á þann hátt komumst við í tæri við grunnskólann og vonandi vekur það áhuga hjá fleirum að vinna í skólanum að loknu námi“

Væntanleg rannsókn KÍ

Staða grunnskólakennara á Norðurlöndum hefur versnað og þeir hafa verulega áhyggjur af því. Þetta kemur fram í öllum samtölum við norræna kollega. Það helsta sem kennarar nefna eru launin, undirbúningstíminn, aukið ofbeldi, aukið álag, agaleysi, lægri greiðslur til grunnskóla, fjölbreyttari nemendahópar, fjölgun útlendinga sem hafa ekki tungumálið á sínu valdi. Fljótt á litið rímar þetta flest við ástandið hér á landi.

Kennarasamband Íslands mun gera rannsókn meðal félagsmanna sinni um ofbeldi í starfi. Það var samþykkt að veita fé í slíka rannsókn á síðasta þingi sambandsins. Ofbeldi, munnlegt og líkamlegt, í garð kennara hefur aukist á öllum Norðurlöndunum. Hér á landi hefur engin rannsókn verið gerð til að kanna ástandið. Vonandi verður bætt úr því hið snarasta.

Helga Dögg Sverrisdóttir, grunnskólakennari.

Slóð á greinina: Ny undersøgelse: Næsten halvdelen af lærerstuderende har overvejet at droppe ud - Danmarks Lærerforening :: Fagforening for lærere (dlf.org)

 

 

Nýjast