20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Áhyggjur af stöðu bænda
Sveitarstjórn Svalbarðsstrandarhrepps lýsir yfir þungum áhyggjum af stöðu bænda og íslensks landbúnaðar vegna mikilla kostnaðarhækkana á aðföngum og vegna íþyngjandi vaxtakostnaðar á skuldsettum búum.
Landbúnaður er stór atvinnugrein í sveitarfélaginu og mikilvægt að matvælaframleiðslu séu skapaðar öruggar rekstraraðstæðursegir í bókun sem samþykkt var á fundi sveitarstjórnar. Breytingar á reglugerðum og lagaumhverfi síðustu ára er lúta að aðbúnaði hefur knúið bændur til að fara í tugmilljóna fjárfestingar með tilheyrandi fjármagnskostnaði. Í núverandi vaxtaumhverfi er enginn hvati til nýliðunar sem er grafalvarleg staða. Sauðfjárbændur hafa jafnframt í áratugi þurft að glíma við erfið rekstrarskilyrði sem hefur leitt til mikillar fækkunar í þeirri starfsgrein.
Sveitarstjórn skorar á stjórnvöld að grípa þegar í stað til raunhæfra aðgerða gagnvart þeim rekstrarerfiðleikum sem bændur standa frammi fyrir svo ekki verði hrun í greininni.
Sveitarstjórn Hörgársveitar lýsir einnig yfir miklum áhyggjum yfir stöðu landbúnaðarins vegna mikillar kostnaðarhækkana og hækkun vaxta á liðnum misserum sem gert hafa atvinnugreininni erfitt fyrir og rekstrargrunnur margra búa hefur brostið. „Landbúnaðar er aðalatvinnuvegur Hörgársveitar og því hvetur sveitarfélagið ríkið til þess að honum sé tryggð sem best rekstrarskilyrði. Landbúnaður er þjóðhagslega mikilvægur og því þarf ríkisvalið að sjá til þess að matvælaframleiðsla eflist svo fæðuöryggi þjóðarinnar verði sem best tryggt,“ segir í bókun sveitarstjórnar Hörgársveitar.