30. október - 6. nóember - Tbl 44
Mikilvægt að koma upp fjölskylduhúsi á Akureyri
,,Ég tel mjög mikilvægt að komið verði á laggirnar fjölskylduhúsi á Akureyri Með þess konar úrræði er hægt að grípa mun fyrr inn í einstök mál barna í viðkvæmri stöðu, fjölga úrræðum og bæta þá þjónustuna. Með þessu úrræði væri einnig í einhverjum tilvikum hægt aðkoma í veg fyrir að grípa þurfi til lengri vistunar eða meðferðar,“ segir Hulda Elma Eysteinsdóttir formaður Velferðarráðs á Akureyri.
Tilkynningum um vanrækslu og áhættuhegðun barna til Barnaverndarþjónustu Eyjafjarðar hefur fjölgað talsvert undanfarin misseri. Vistanir barna utan heimilis í ár eru nú orðnar tuttugu fleiri en þær voru í fyrra. „Við sjáum barnaverndina þenjast út á milli ára og ein helsta skýringin á því er sú að fleiri þung mál eru inni í kerfinu um þessar mundir en verið hefur og þá hefur málum einnig fjölgað lítillega,“ segir Hulda Elma.
Það sem af er ári hafa um 60 börn verið vistuð utan heimilis í fóstri eða vistun til skemmri og lengri tíma og segir hún að þá séu ótalin þau skipti sem börn hafi verið vistuð til skemmri tíma á einkaheimilum í því skyni að vinda bráðan bug á aðstæðum sem upp hafi komið. „Þetta eru sláandi tölur en ég bind vonir við að um tímabundið ástand sé að ræða.“
Miðholt hefur reynst mjög vel
Hulda Elma segir að um skeið hafi verið rekið á Akureyri greiningar- og þjálfunarvistun í heimahúsi, undir heitinu Miðholt. Hjón reka þá starfsemi í samstarfi við barnaverndina „Það úrræði hefur reynst okkur mjög vel og viljum við gjarnan að hægt sé að senda fleiri börn í slíkt úrræði,“ segir hún „ en færri hafa komist að en þurfa“.
Umræður um fjölskylduhús á Akureyri hefur verið á lofti um nokkurra ára skeið og segir Hulda Elma að nú séu viðræður hafnar við ráðuneytið um mögulega þátttöku ríkisins í því verkefni. Málið sé brýnt, en samtalið sé á byrjunarstigi, „en ég vonast til að það verði unnið hratt og vel áfram,“ segir hún.