30. október - 6. nóember - Tbl 44
Fiskehátíðin í Grímsey s.l laugardag
Á laugardaginn var haldið upp á Fiskehátíðina í Grímsey, eins og siður er ár hvert. Boðið var upp á girnilegt kvöldverðarhlaðborð í félagsheimilinu Múla og síðan slegið upp balli. Alls dvelja tæplega 30 manns út í eyju um þessar mundir og fögnuðu deginum saman.
Fiskehátíð er haldin í Grímsey 11. nóvember á hverju ári til að minnast afmælis Daniels Willard Fiske (1831-1904) sem var velgjörðmaður samfélagsins en steig þó aldrei fæti sínum á land í Grímsey. Hann var bandarískur prófessor við Cornell háskóla í New York fylki í Bandaríkjunum. Hann lærði íslensku þegar hann var í námi í Danmörku 1849 og safnaði öllu íslensku efni sem til var á prenti auk ljósmynda af Íslandi. Stórt safn íslenskra bóka og ljósmynda er nú varðveitt í Cornell. Fiske sigldi hringinn í kringum landið 1879. og sá þá Grímsey tilsýndar og heillaðist af dugnaði og menningaráhuga íbúanna. Grímseyingar voru góðir skákmenn og þar sem Fiske var mikill áhugamaður um skák komst hann í bréfasamband við tvo menn í Grímsey. Þar með hófst vináttusamband hans við Grímseyinga sem varði meðan hann lifði. Árið 1901 færði Fiske Grímseyingum stórt bókasafn sem hann nefndi Eyjarbókasafnið. Það er nú varðveitt í bókasafni skólans í upprunalegum bókaskápum.
Í erfðaskrá sinni ánafnaði hann Grímseyingum veglegan peningasjóð, Grímseyjarsjóð Willard Fiske, til að endurbæta húsakostinn og bæta mannlíf í eyjunni og í þakklætisskyni voru nokkrir drengir í Grímsey skírðir eftir honum. Í eyjunni er minnismerki um Fiske er eftir Gunnar Árnason myndhöggvara og var gefið af Kiwanisklúbbnum Grími. Það var afhjúpað þann 11. nóvember 1998.