Vilji og skilningur á mikilvægi þess að efla list- og verkgreinakennslu í grunnskólum Akureyrar
Grunnskólar Akureyrarbæjar uppfylla jafnaði viðmiðunarstundaskrá þegar kemur að kennslu í list– og verkgreinum samkvæmt Aðalnámskrá grunnskóla en í sumum greinanna tekst þó ekki að uppfylla viðmið í öllum árgöngum þrátt fyrir útsjónarsemi og hagræðingu í skólastarfi. Þetta á einna helst við um tónmennt og dans þó smíðar og heimilisfræði hafi einnig verið nefnt. Helsta ástæða þess er skortur á fagmenntuðum kennurum m.a. vegna mikillar samkeppni á vinnumarkaði. Þetta kemur fram í samantekt fræðslu- og lýðheilsusviðs um kennslu og umgjörð list- og verknáms í grunnskólum á Akureyri og kynnt hefur verið í fræðslu- og lýðheilsuráði. Ráðið mun nú meta stöðuna og mögulega setja fram tillögur um aðgerðir í þeim tilgangi að auka vægi list- og verkgreina í starfi skólanna.