20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Úthlutun úr Minningarsjóði Baldvins Rúnarssonar Fjórir styrkir til góðra málefna
Fjórir styrkir, samtals að upphæð tvær milljónir króna var úthlutað úr Minningarsjóði Baldvins Rúnarssonar í gær. Líkt og áður var lögð áhersla á að styrkja málefni sem voru Baldvini hugleikin og styðja þannig það góða starf sem unnið er víða á Akureyri og í nágrenni. Styrkirnir voru afhentir við stutta athöfn í Hamri, félagsheimili Þórs.
Fram kom að með með styrkveitingunum dagsins hefur verið úthlutað rúmum 13 milljónum króna frá því sjóðurinn var stofnaður fyrir fimm árum.
Bergið Headspace hlýtur styrk upp á 500.000 kr. Bergið er stuðnings-og ráðgjafasetur fyrir ungt fólk upp að 25 ára aldri og hóf nýverið störf á Akureyri og er styrknum ætlað að styðja við starfið á Akureyri.
Arnar Geir Halldórsson stjórnarmaður í minningarsjóðnum og Erla Lind Friðriksdóttir frá Berginu Headspace.
Íþróttafélagið Þór hlýtur styrk upp á 500.000 kr. til að koma af stað innan félagsins verkefninu Allir með sem sem er samstarfsverkefni ÍSÍ, UMFÍ OG ÍF sem miðar að því að öll börn og ungmenni eigi möguleika á því að taka þátt í íþróttum í sínu nærumhverfi.
Ingólfur Árnason, stjórnarmaður í minningarsjóðnum, og Linda Guðmundsdóttir íþróttafulltrúi hjá Þór.
Aðalstjórn Þórs hlýtur styrk upp á 500.000 kr. sem er ætlað til búnaðarkaupa sem munu efla umgjörð í kringum heimaleiki Þórsliða í öllum greinum félagsins.
Hermann Helgi Rúnarsson, stjórnarmaður í minningarsjóðnum og bróðir Baldvins heitins, og Nói Björnsson, formaður íþróttafélagsins Þórs.
KAON, Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis, hlýtur styrk upp á 500.000 kr. sem ætlað er í heilsueflingarsjóð KAON sem er samstarfsverkefni KAON og Minningarsjóðs Baldvins. Markmiðið er að hvetja krabbameinsgreinda til líkamsræktar og auka fræðslustarf um heilsurækt á vegum KAON.
Ragnheiður Jakobsdóttir stjórnarmaður í minningarsjóðnum og móðir Baldvins heitins, til vinstri, og Eva Björg Óskarsdóttir frá KAON.