20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Dýrleif Skjóldal og fjölskylda hefur tekið á móti 6 skiptinemum
„Þetta verður óskaplega gaman og við hlökkum mikið til,“ segir Dýrleif Skjóldal, Dilla sem í ágúst fær til sín skiptinema frá Ekvador. Það er í sjálfu sér ekki í frásögur færandi, nema fyrir það að fyrir rúmum tveimur áratugum tóku Dilla og hennar maður, Rúnar Arason á móti skiptinema frá Ekvador og sá er pabbi stúlkunnar sem síðsumars fetar í fótspor föður síns. Alls eru væntanlegir næsta haust 27 skiptinemar til dvalar hjá íslenskum fjölskyldum og eru þeir frá 16 þjóðlöndum. Dvalartími þeirra er frá þremur og upp í tíu mánuði.
Fyrstu kynni Dillu af AFS skiptinemasamtökuum voru þegar hún fór sjálf sem skipitnemi til Noregs. „Það var virkilega skemmtilegt og ég kunni þessu einstaklega vel, var að fíla þetta í botn ef svo má að orði komast,“ segir hún. Allt hafði þó fyrir þetta mörgum árum verið með öðrum brag en nú er. Helstu samskipti voru þá í gegnum bréfaskriftir, sest var niður og fært niður á blað það helst hafði borið við í lífi og starfi og svo var beðið eftir svari sem yfirleitt kom mánuði síðar. „Það var nú ekki verið að splæsa í rándýr símtöl nema rétt á jólunum,“ segir h
ún.
Í grillveislu hjá Sævari, syni Dillu og Rúnars. Fjölskyldan frá Ekvador nýkomin til Akureyrar
Fannst ég hafa þekkt hann alla ævi
Dilla og Rúnar hafa um árin hýst 6 skiptinema, hvaðanæva að úr heiminum. Sá sem var númer 2 í röðinni heitir Ivan Alfredo Valarezo Calle frá Ekvador og dvaldi á heimili þeirra veturinn 2003 til 2004. „Við sóttum hann á flugvöllinn og um leið og ég sá hann vissi ég að hann var „sonur“ minn. Ég upplifði strax eins og ég hefði þekkt hann alla ævi. Ivan varð strax hluti af fjölskyldunni og allar götur síðan, í rúma tvo áratugi höfum við verið í sambandi við hann og fjölskyldu hans. Við höfum farið í heimsóknir til Ekvador til þeirra og þau hafa komið til Íslands til okkar,“ segir hún.
Sambýliskona Ivans er Gabríela Castro og þegar þau eignuðust dóttur fyrir tæpum 17 árum, var hún nefnd Dýrleif Joaquina Valarezo Castro, kölluðu Dillíta sem útleggst sem Litla Dilla.
Fremstur er Ívan og Gaby fyrir aftan hann, þá Dýrleif Skjóldal, Dilla með Dillítu. Margot mamma Ívans heldur utan um hana. Við hlið hennar er Katrínar frænka Ívans og Alexandra systir hans. Sú sem heldur í hana er mamma Gabyar og fyrir aftan hana er Ívan og pabbi Ívans.
Gamla kommahjartað
„Ég varð auðvitað himinlifandi þegar hann hringdi og sagði mér frá dóttur sinni og nafni hennar. Og það má auðvitað segja að gamla kommahjartað mitt tók aukaslag við það að heyra nöfnin Dilla og Castró í sömu andrá,“ segir hún og hefur gaman af að rifja þetta augnablik upp. Þau hjónin fóru til Ekvadór að líta að Dillu litlu þegar hún varð 10 mánuða og þau eru nú í lok júní á leið út til að verða við útskrift hennar. „Það verður mjög skemmtilegt að vera viðstödd þá athöfn og við hlökkum mikið til að geta tekið þátt í henni með fjölskyldunni,“ segir Dilla og bætir við að ekki verði síður gaman að fá stúlkuna sem nýjan skiptinema í lok sumars. „Afinn og amman eru mjög spennt að fá hana til vetrardvalar hjá okkur.“ Dillíta mun fara til náms við Menntaskólann á Akureyri líkt og pabbi hennar forðum.
Gefandi að kynnast skiptinemum
Dilla segir mjög gefandi að kynnast skiptinemum. „Við lærum alltaf eitthvað um þeirra heimalönd, þau segja okkur frá því hvernig lífið gengur fyrir sig þar og svo er líka krefjandi fyrir okkur að kynna okkar land og segja þeim frá af hverju hlutirnir eru eins og þeir eru hjá okkur,“ segir hún. Einnig fá þau kærkomið tækifæri til að ferðast um landið sitt, því yfirleitt er það hluti af dvöl erlendra skiptinema að fá að sjá eitthvað af þeim náttúruperlum sem landið býður upp á. „Mér finnst þetta frábær leið til að kynnast bæði eigin landi og átta mig betur á af hverju við erum eins og við erum og líka að fá í gegnum skiptinemann að kynnast þeirra landi. Þetta er gefandi og skemmtilegt samstarf sem ég mæli með að fólk prófi.“
Í Bláa lóninu.