Leita eftir áhugasömu fólki til að vakta landið

„Við leitum eftir áhugasömu fólki, bændum eða landeigendum sem dæmi til að taka þátt í þessu mikilvæga verkefni með okkur,“ segir Jóhann Helgi Stefánsson umhverfis- og auðlindafræðingur hjá Landi og skógi. Þar á bæ er verið að fá fólk til liðs við vöktunarverkefnið Landvöktun – lykillinn að betra landi.

Þetta verkefni er einnig tilvalið fyrir hópa, stóra sem smáa. „Því fleiri sem hoppa upp á vagninn til okkar, því betra. Við fáum meiri gögn til að lesa úr og aukna þekkingu og eru betur í stakk búin til að taka upplýstar ákvarðanir um landnýtingu,“ segir hann.

Meta ástand gróðurs og jarðvegs

Verkefnið Landvöktun er hluti að öðru verkefni, Grólind sem staðið hefur yfir undanfarin ár og snýst um að vakta gróður og jarðveg á Íslandi. „Þeir sem taka þátt í þessu með okkur leggja sitt lóð á vogarskálarnar við söfnun gagna sem við svo nýtum til að meta ástand gróðurs og jarðvegs hvarvetna um landið,“ segir hann.

Til stendur að gera með reglubundnum hætti heildarmat á ástandi gróður- og jarðvegsauðlinda hér á landi. „Við erum að fá fólk úti í samfélaginu með okkur í þetta en þannig teljum við að náist betri árangur. Við gefum fólki kost á að vakta ástand landsins, en það er talsverður áhugi meðal almennings fyrir þessum málum og margir sem gætu hugsað sér að vera með,“ segir Jóhann Helgi.

Jóhann Helgi Stefánsson

Vantar þátttakendur fyrir norðan

Verkefnið er fjármagnað með fé úr Búvörusamning. Það hófst árið 2022, en fór hægt af stað það sumar. Í fyrrasumar voru þátttakendur orðnir 18 talsins, en Jóhann Helgi segir að vanti fólk til að vera með t.d. í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum. Einungis einn þátttakandi er skráð enn sem komið er og er sá í síðarnefndu sýslunni.

Þátttakendur velja sér svæði til að vakta, þeir fylgjast regluleg með og senda upplýsingar til stjórnenda verkefnisins. Gögnin verða nýtt við að gera heildar ástandsmat á stöðu gróðurs og jarðvegs á öllu Íslandi. Gervigreind verður mötuð á upplýsingum sem þátttakendur Landvöktunar og starfsfólk LOGS safnar. Hún greinir gervitunglamyndir og flokkar land í ástandsflokka.


Athugasemdir

Nýjast