20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Lokaorðið - Lífsins gangur
Ég elska vorið. Birtuna og sólargeisla sem jafnvel láta sjá sig. Vorboðarnir, litlu lömbin, þessi sem allir forsetaframbjóðendurnir hafa kysst þetta vorið. Gróðurinn sem er að vakna til lífsins og kýrnar valhoppandi rétt eins blessuð börnin sem skoppa út úr skólanum tilbúin í sumarið. Nú er líka besti tíminn til að dusta rykið af gönguskónum og arka út í náttúruna. Þarf smá átak til að rífa sig upp úr sófanum. En það þarf ekki að hlaupa af stað á erfiðasta fjallið á svæðinu og alls ekki vera í kappi við tímann. Byrja rólega og fara frekar oftar.
Fjallganga er ekki ólík lífsins göngu
„Kapp er best með forsjá, og sá sem hraðar sér, misstígur sig“ á svo sannarlega við um útivist sem og lífsins göngu. Stundum er glaða sólskin en á örskammri stundu er blessuð íslenska þokan mætt eða frískandi rigningin, sem kemur frekar lárétt en lóðrétt. Stundum er vegurinn beinn og breiður, stundum er hann grýttur og illfær. Í einstaka tilvikum getur maður lent í sjálfheldu ef maður hugar ekki að sér.
Samferðarmenn
Í fjallgöngum gildir það sama og í lífsins göngu. Það skiptir öllu máli að hafa góða og trausta samferðarmenn, unga sem aldna. Traustur og skemmtilegur samferðarmaður gerir allar gönguferðir ánægjulegri og grýttar leiðir verða greiðfærari. Veðrið verður betra, vindinn lægir, sólin iljar meira og rigningin og rokið er bara hressandi súrefnisbomba sem bætir og kætir. Ef við hrösum eða villumst af leið þá mun traustur samferðarmaður leiða okkur úr ógöngum og aftur á beinu brautina.
Það toppar fátt toppinn
Að komast á toppinn sem stefnt var á er alltaf besta tilfinningin. Standa á toppnum, anda að sér fersku súrefni og njóta náttúrufegurðarinnar, gefa sér tíma. Njóta en ekki þjóta. Við uppskerum erfiðið. Besta við íslensku náttúruna er að við getum alfarið stjórnað ferðinni. Hvert er farið, hraðanum, samferðarmönnum. Þurfum enga tímapöntun og það kostar ekkert.
Gleðilegt íslenskt náttúrusumar.