30. október - 6. nóember - Tbl 44
Fréttir
Hefur alltaf þótt meira gaman að vera með yngra fólkinu
Ekki verður sagt að aðstaða til íþróttakennslu á fyrstu árum Verkmenntaskólans á Akureyri hafi verið upp á marga fiska. En bæði kennarar og nemendur létu sér þetta lynda enda ekkert annað í boði. Ásdís Karlsdóttir var ein þeirra íþróttakennara sem tóku fyrstu skrefin í íþróttakennslu í skólanum fyrir um fjórum áratugum og kenndi íþróttir við skólann sem næst tvo áratugi – eða þar til hún varð 67 ára gömul. Þetta viðtal birtist á vef Verkmenntaskólans og hér birt með góðfúslegu leyfi frá vefstjóra skólans
„Aðstaðan var heldur bágborin. Til að byrja með var bara aðstaða fyrir verklega kennslu niður í Íþróttahöll og síðan voru bóklegu tímarnir upp í skóla. Það var því oft erfitt að koma saman stundaskrá því bæði við kennararnir og nemendur vorum á eilífum hlaupum á milli. En þetta var vissulega ágætis líkamsrækt!
Mannréttindi. Upplýsingaöflun lögreglu um einkamálefni manna.
Með 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar er öllum sem staddir eru innan íslenskrar lögsögu tryggður réttur til friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu. Í 2. mgr. sömu greinar er mælt fyrir um að ekki megi gera tilteknar rannsóknaraðgerðir sem skerða friðhelgi einkalífs nema samkvæmt dómsúrskurði eða sérstakri lagaheimild. Á það meðal annars við um rannsókn á símtölum eða öðrum fjarskiptum. Þessu til viðbótar gilda ýmis strangari lagaákvæði sem vernda sérstaklega ýmis samskipti manna við sérfræðinga sem eðli máls samkvæmt bera þagnarskyldu um efni samskiptanna, svo sem lögmenn, sálfræðinga, presta, lækna o.fl. og eru slík ákvæði áþekk í flestum frjálslyndum lýðræðisríkjum. Lögin taka ekki mið af þróun síðustu ára varðandi það sem hægt er að kalla rafræna tilvist eintaklinga og því má halda fram með ágætum rökum að sá fátæklegi dómskaparréttur sem til er á þessu sviði eigi sér ekki sterkan lögfræðilegan grundvöll eins og tæknin hefur þróast.
SAk - Tengja fæðingardeild við barnadeild
Vinna við tengigang Sjúkrahússins á Akureyri er vel á veg komin og bjartsýnustu spár segja að hann verði tekinn í notkun í apríl. Þessa dagana er verið að setja upp glerveggi, vinna að lokafrágangi s.s. loftræstingar, raflagnavinnu, dúklagninga, kerfislofts og málningarvinnu. Í framhaldinu koma innréttingar og tæknibúnaður.
Nú er hægt að greiða fyrir bílastæði á Akureyri með appi án aukagjalda
Verna hefur opnað appið sitt fyrir öll, hvort sem bíllinn er tryggður hjá Verna eður ei. Meðal nýjunga í appinu er sá möguleiki að leggja bílnum í gjaldskyld stæði án þess að greiða aukagjöld. Í notkun á appinu felst engin skuldbinding, bara ávinningur þar sem notendur geta nýtt sér ýmis sértilboð og fríðindi.
Kollsteypa með dropateljara á Akureyri
Í talsvert einfaldaðri mynd má segja að heilbrigðiskerfið íslenska eigi sér fjórar stoðir. Heilsugæsla, sjúkrahúsþjónusta, sérfræðiþjónusta og öldrunarþjónusta. Þrjár af þessum fjórum stoðum eiga undir verulegt högg að sækja á Akureyri og svar ríkisstjórnarinnar, ábyrgðaraðila kerfisins, virðist vera að fela einkafyrirtæki að leysa vandann.
Rannsókn á orsakaferli í kjölfar sjálfsvígs
Þann 1. desember sl. lagði undirrituð fram tillögu til þingsályktunar um rannsókn á orsakaferli í kjölfar sjálfsvígs. Tillagan hefur það að markmiði að stuðla að öflun gagna sem nýtast við greiningu á áhættuhópum, í forvarnastarfi og við mótun fyrirbyggjandi aðgerða með það að markmiði að koma í veg fyrir sjálfsvígstilraunir og sjálfsvíg. Þess er farið á leit í tillögunni að starfshópurinn skili skýrslu með tölfræði og tillögum að aðgerðum, bæði fyrirbyggjandi og í forvarnarstarfi til framtíðar, eigi síðar en 1. maí 2024. Tillagan er unnin í miklu samstarfi við embætti Landlæknis og vil ég sérstaklega þakka Guðrúnu Jónu Guðlaugsdóttur, verkefnastjóra sjálfsvígsforvarna og Högna Óskarssyni, geðlækni og ráðgjafa fyrir þeirra þátt í vinnunni, sem var ómetanlegur.
Þörf á breytingum
Þegar andlát á sér stað, er það rannsakað til að gera grein fyrir dánarmeini. Rannsóknir lögreglu og héraðslækna fara fram til að ákveða hvort andlát hafi borið að með saknæmum hætti eða ekki. Ef raunin er ekki sú, þá er almennt ekki aðhafst meira. Rannsókninni lýkur og orsökin er skráð í dánarmeinaskrá. Það á m.a. við ef um sjálfsvíg er að ræða. Sjálfsvíg eru ekki rannsökuð afturvirkt þar sem undanfari þeirra er skoðaður í þaula í leit að þáttum sem komu einstaklingnum í það hugarástand sem hann var í við andlátið. Nauðsynlegt er að slík rannsókn fari fram með þeim hætti að fara afturvirkt yfir lýðfræðilegar breytur, aðstæður, atburði og möguleg áföll sem einstaklingurinn upplifði í undanfara sjálfsvígs. Þá er m.a. átt við brottfall úr skóla, atvinnumissi eða langvarandi atvinnuleysi, sambandsslit, makamissi, ofbeldi, neyslu vímugjafa og hvað annað sem getur haft áhrif. Með slíkri rannsókn er hægt að afla hagnýtra gagna sem geta skipt sköpum í áframhaldandi vinnu samfélagsins gegn sjálfsvígum, bæði í forvarnavinnu og við mótun fyrirbyggjandi aðgerða. Gögnin myndu einnig nýtast við það mikilvæga verkefni að greina áhættuhópa í samfélaginu, þ.e. þá hópa sem líklegri eru til að upplifa sjálfsvígshugsanir, gera sjálfsvígstilraunir eða deyja í sjálfsvígi, umfram hefðbundnar breytur á borð við kyn, aldur og búsetu. Nú eru slík gögn ekki til staðar.
Lífsbrú - miðstöð sjálfsvígsforvarna
Í gær kynnti Landlæknir aðgerðir gegn sjálfsvígum og nýja miðstöð sjálfsvígsforvarna. Miðstöðin, sem hlotið hefur nafnið Lífsbrú, varð að veruleika þegar föstu fjármagni frá Heilbrigðisráðuneytinu var veitt ótímabundið í sjálfsvígsforvarnir. Hér er verið að taka risastórt skref í átt að breytingum til hins betra og því ber sannarlega að fagna. Á heimasíðu verkefnisins, www.lifsbru.is segir:
„Markmið Lífsbrúar er að fækka sjálfsvígum á Íslandi í samræmi við áætlun stjórnvalda. Það verður gert með því að velja gagnreyndar aðferðir sem reynst hafa vel í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Einnig að þróa og innleiða verklag, fræðsluefni og leiðbeiningar til að nota á öllum stigum forvarna, ásamt því að stuðla að vitundarvakningu og símenntun.
Markmiðum verður náð með breiðri samvinnu fagfólks, notenda, stofnana og félagasamtaka en einnig með fjáröflun til sjálfsvígsforvarna. Í því skyni hefur verið stofnaður sjóður með sama nafni.“
Sem samfélag viljum við alltaf gera betur
Sjálfsvíg eru viðkvæmt samfélagslegt málefni. Þau hafa mikil áhrif á aðstandendur og jafnvel heilu samfélögin. Áhrifin teygja anga sína víða en samkvæmt tölum frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni verða að meðaltali 135 einstaklingar fyrir áfalli í kjölfar sjálfsvígs eins einstaklings. Talið er að um sex þúsund manns verði fyrir áhrifum af sjálfsvígum á hverju ári hér á landi. Samfélagið vill gera betur, grípa einstaklinga í áhættuhópum, ganga í fyrirbyggjandi aðgerðir, efla forvarnastarf og bjóða upp á sálræna aðstoð fyrir bæði einstaklinga í áhættuhópum og aðstandendur þeirra. Við höfum þörf fyrir að ávallt fari fram rannsókn, svo að komast megi að því hvað hafi gerst og finna alla annmarka sem eru á öryggisneti samfélagsins.
Götuhornið - Aðkomumaður skrifar!
Það kom ekki til af góðu að ég flutti til Akureyrar. Konan varð ólétt og hvorugt okkar vildi hætta að vinna utan heimilis. Við ákváðum að barnið færi á leikskóla. Við urðum þess vegna að flytja frá Reykjavík. Þar er meira að segja tveggja ára biðlisti eftir að komast á biðlista eftir leikskólaplássi. Við ákváðum að taka skrefið til fulls, ekki bara flytja til Akureyrar heldur ganga enn lengra og flytja út fyrir mörk hins byggilega heims. Við keyptum okkur þess vegna hús í Glerárhverfi.
Það er margt sem kemur á óvart á Akureyri og ekki bara það að hér er ekki lengur töluð danska á sunnudögum. Rígurinn milli KA og Þórs setur skemmtilegan brag á bæinn. Við leigðum íbúð á Brekkunni í nokkrar vikur áður en við fluttum út fyrir Glerá. Þá elskaði ég KA og hataði Þór. Á flutningsdaginn urðu síðan pólskipti á þessu og ég henti öllum bláu og gulu sængurverunum og keypti rauð og hvít. Lifi Þór!!!
Akureyringar elska kirkjuna og bæjarmyndina. Samt byggðu þeir háhýsi til að tryggja að kirkjan falli í skuggann og íbúar í gömlu Hafnarstætishúsunum sjái aldrei til sólar. Reyndar sér enginn til sólar í miðbænum lengur nema á litlum reit norðan við pylsuvagninn í Hafnarstrætinu seinni hluta dags ef maður tyllir sér á tá við norðvesturhorn vagnsins og reigir hausinn lítið eitt til suðvesturs.
Á Akureyri notar enginn maður stefnuljós. Venni í Austurhlíð hefur haft samband við nýja framkvæmdastýru Drifts EA um að stofna nýsköpunarfyrirtæki um útflutning á ónotuðum stefnuljósarofum úr akureyrskum bílhræjum. Akureyringar kunna heldur ekki að nota hringtorg. Þeir halda að þeir eigi ekki bara að víkja fyrir þeim sem eru á hringtorginu, heldur líka öllum sem eru að koma að því og ætla inn á það. Þetta er drepfyndið. Þegar þeir mætast í umferðinni veifa þeir hver öðrum eða stoppa fyrirvaralaust og ræða saman. Fyndnast er þó hvernig þeir nota umferðarljós þar sem þeir bíða auðmjúkir eftir græna ljósinu sínu. Þegar það kviknar bíða þeir enn um sinn en fara svo af stað nokkrum sekúndum áður en gult ljós kviknar á ný. Þannig gæta þeir þess að enginn annar noti græna ljósið þeirra. Það tekur smá tíma að venjast þessu.
Akureyringar hata háhýsi og ef einhverjum dettur í hug að byggja hús sem er hærra en 6 hæðir verður hér allt vitlaust. Að sama skapi elska þeir lítil og ónýt einnar hæða hús. Gamla BSO húsið situr sem fastast eins og graftarbóla á andliti unglingspilts hálft úti á fjölförnustu gatnamótum bæjarins eins og síðasta vígi sólargeislans í þröngum, gráum og sólarlausum miðbæ.
Á Akureyri kostar ekkert að fara með strætisvögnum. Leiðakerfið er reyndar þannig að það er ekkert hægt að nota strætó og foreldrar aka börnum sínum milli skóla og íþróttahúsa fram og til baka allan liðlangan daginn meðan strætisvagnarnir dóla mannlausir um bæinn eftir óskiljanlegu kerfi sem enginn skilur en allir vita þó að má hvorki fara á flugvöllinn né á tjaldstæðið á Hömrum.
Akureyringar nota bílana sína eins og úlpur. Þeir klæða sig í einkabílinn inni í bílskúr eða bílageymslu, keyra hann upp að dyrum verslunarinnar sem þeir ætla í og klæða sig þar úr honum meðan þeir fara inn að versla, of með vélina í gangi svo úlpan verði hlý og notaleg þegar þeir klæða sig í hana aftur. Ef þeir drepa á vélinni er lykillinn skilinn eftir í svissinum. Það hefur heldur engan tilgang að fara með hann inn því að húsin eru öll ólæst.
En Akureyringar kunna svo sannarlega að læra af þeim sem meira kunna. Reykvíkingar hafa þrengt að flugvellinum í Vatnsmýrinni og nú ætla Akureyringar líka að þrengja það samgöngumannvirki í almannaeigu sem er í miðjum þeirra bæ og gera Glerárgötuna að götu með eina akrein í hvora átt.
Ég er farinn að venjast því að búa hérna og farinn að kunna vel við mig. Frænka mín úr Bárðardalnum þarf ekki lengur að túlka norðlenskuna fyrir mig og ég er hættur að standa í tveggja metra fjarlægð frá fólki til að fá ekki yfir mig frussið sem fylgir harðmælskunni. Það er bara notalegt í hitamollunni sem er hér alla daga. Ég er reyndar fullur aðdáunar yfir því að Akureyringar virðast hafa náð valdi á því að fjarlægja rusl frá heimilum fólks í stað þess að láta það safnast þar upp eins og í borg Da... já, Dags. Sömuleiðis hafa þeir áttað sig á því að það þarf meiri við búnað til að moka meiri snjó á veturna en á sumrin og að eftir snjókomu þarf að moka meira en þegar ekki hefur snjóað. Hver hefði trúað því? Það mætti senda Finn Aðalbjörns suður til að kenna flatlendingunum undirstöðuatriðin í þessu. Reyndar horfir nú allt til betri vegar í Reykjavík því að þar hefur Framsóknarmaður tekið við yfirveðsettum veldissprotanum þar á bæ. En ég fer ekki heim aftur í bráð. Ég elska að skammast yfir Bíladögum, túristum, Reykvíkingum og utanbæjarmönnum.
Ómetanlegur starfskraftur
Sendinefnd Evrópusambandsins á Íslandi hefur þakkað Halldóri Mikael Halldórssyni ungum Akureyringi fyrir frábær störf, en Mikael lauk nýlega störfum sem starfsnemi í Stjórnmála- og upplýsingadeild Sendinefndarinnar.
Sem starfsnemi sá Mikael um málefnum sem sneru m.a. að Alþingi, EES samningnum, styrkveitingum úr nýsköpunar- og rannsóknarsjóðum ESB til verkefna á landsbyggðinni, samfélagsmiðlum og vann einnig að skipulagningu viðburða, o.fl.
„Mikael hefur verið ómetanlegur starfskraftur,“ segir á vefsíðu sendinefndarinnar sem óskar honum alls hins besta.
Fjölbreytni í fyrirrúmi hjá Listasafninu á Akureyri 2024
Nýtt starfsár Listasafnsins á Akureyri hófst formlega síðastliðinn laugardag þegar opnaðar voru sýningar þeirra Alexanders Steig, Steinvölur Eyjafjarðar, Guðnýjar Kristmannsdóttur, Kveikja, og Sigurðar Atla Sigurðssonar, Sena. Alls verða sýningarnar 22 á árinu og á meðal annarra listamanna eru Salóme Hollanders, Heiðdís Hólm, Jónas Viðar, Gunnar Kr. Jónasson, Detel Aurand, Claudia Hausfeld, Fríða Karlsdóttir, Oliver van den Berg, Georg Óskar, Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir og Einar Falur Ingólfsson. Á kynningarfundi sem haldinn var á dögunum var dagskrá ársins 2024, ný árbók og komandi starfsár kynnt. Árbókin er nú öllum aðgengileg og gjaldfrjáls í anddyri safnsins auk valdra staða á Akureyri og á heimasíðu þess, listak.is. Á fundinum var einnig tilkynnt um styrki frá Safnaráði og Listaverkasafni Valtýs Péturssonar.