Uppáhalds... gönguleiðin mín Hermann Gunnar Jónsson skrifar

Hermann Gunnar Jónsson fer með lesendur í fjallgöngu    Myndir aðsendar
Hermann Gunnar Jónsson fer með lesendur í fjallgöngu Myndir aðsendar

Þegar ég hugsa hver gæti verið uppáhalds gönguleiðin mín þá koma strax í huga minn all margar leiðir. Bæði eru þær í byggð og einnig út á skaganum okkar Gjögraskaga/Flateyjarskaga. Leið sem ég kalla Svínárdalshringinn getur þó með góðu móti vermt toppsætið hjá mér. Eins og heiti leiðarinnar ber með sér þá inniheldur hún fjallstindana sem umlykja Svínárdal sem er sunnarlega í Látrastrandarfjöllunum, upp af eyðibýlinu Svínárnesi, norðan Kaldbaks.

Á Útburðarsklárhnjúk.

Til að upplifa kosti og tignarleika hringsins þá finnst mér verða að ganga hann réttsælis. Óskaskaða mín er þá að hefja gönguna í Svínárnesi en þangað er vegslóði ef möguleiki er á akstri en sú leið er um 7 km frá Grenivík og telur þá gönguleiðin um 15 km ef göngulok eru á Grenivík. Annars má með góðu móti ganga hringleið norður frá Grenivík og þegar komið er norður fyrir Hringsdals og styttast fer í Svínárnes er upplagt að fara að hækka sig í landinu með stefnu á mynni Svínárdalsins sem er í um 350 m hæð. Þessi hringur frá Grenivík fer nærri því að telja rúma 20 km og er alveg fullorðinn göngudagur. Heildar hækkun leiðarinnar er yfir 1400 m.

 Ég hef gjarnan valið að ganga úr mynni Svínárdalsins beint norður og upp á Svínárhnjúksöxlina neðantil. Trúlega má hafa sig með sæmilegu móti upp öxlina frá neðstu fjallsrótum en það er ekki síður krefjandi leið. Síðan fikra ég mig upp öxlina allar götur á Svínárhnjúk og á þeirri leið er heillandi að virða fyrir sér veröldina bæði umhverfis Svínárdalinn og einnig norður eftir Látraströnd og yfir á Tröllaskaga. Hryggurinn er allbrattur á köflum og fullur af skemmtilegu. Þegar komið er á Svínárhnjúkinn (1058 m) fer að opnast fjallasýn austur yfir fjallgarðinn og í fjarska ber á fjallaröðlinum austan Flateyjardals þar sem mikið ber á Skálavíkurhnjúk og Kambi sunnar.

Ef maður er í stuði og þrek leyfir útúrdúra þá eru tindar sem blasa við í norður stefnu þeir Steindyrahnjúkur, Þerna og Skersgnípa, heillandi fjöll og krefjandi og gaman að flétta þá inn í dagsverkið en margir munu eiga nóg með Svínárdalshringin án króka. En nú er ég ekki á leið norður heldur í suður stefnu yfir Eiríksskarð og yfir á “Eiríksskarðskoll” (1039 m) og er ég nú að komast í návígi við þá nágranna með köldu nöfnin, þá Útburðarskárhnjúk og Kaldbak. Þegar ekið er norður Höfðahverfi þá eru þessi tvö fjöll áberandi og að virðast í sömu hæð og má það til sans vegar færa. Nú fer að líða að tilkomumesta kafla leiðarinnar fyrir mitt leyti en það er uppgangan á Útburaðrskálarhnjúk (1172 m). Þegar nær dregur er heillandi er að virða fyrir sér tilkomumikinn norðurhamravegg fjallsins með trjónum sínum þremur út úr efstu hömrunum. Þegar upp er komið á hnjúkinn utanverðan held ég suður eftir nokkuð hvassri egg með þverhnípið á vinstri hönd uns ég kem á rýmra svæði ögn sunnar og þar er gaman að virða fyrir sér fjallaskörð, tinda og toppa allt um kring, meðal annars út á Lágu- og Háu-Þóru í Fjörðum.

Útburðarskálarhnjúkur og fjær er Kaldbakur

Útburðarskálarhnjúkur finnst mér eitt af topp útsýnisfjöllum skagans. Nú tekur við ekki minni ánægja en það er að hafa sig 100 m niður í skarðið sunnan hnjúksins og upp groddann í norður öxl Kaldbaks. Þar virkar vel að taka bara hlutunum með ró og njóta en þetta er um 100 m hækkun úr skarðinu að vörðunni á Kaldbak. Þessi grófi hluti finnst mér bráð skemmtilegur. Þegar nálgast fer toppinn liggur vel við að nota hendur til stuðnings því leiðin er svolítið príl. Nú er bara að rykkja sér upp síðasta skrefið upp á Kaldbakin (1173 m) og er þá varla meira en einn faðmur að vörðunni yst á fjallinu og liggur þá vel við að pára í gestabókina sem þar er í boxi. Nú er að njóta útsýnis og þá er í framhaldinu undan að sækja þægilega leið en grýtta suður af Kaldbaksöxlinni með Grenjárdal á vinstri hönd, allar götur niður í byggð. Á niðurleiðinni hefur maður í fanginu gríðarlega víðsýni inn Eyjafjörð og nánast út um alla veröldina. Neðar mildast leiðin og neðstu 500 hæðarmetrarnir geta verið í kindagötum ef maður óskar þess og hittir vel á. Útfærsla á þessum hring getur verið á fleiri vegu og meðal annars á þá leið að ganga upp Svínárdalinn sem er heillandi og koma sér upp á fjallgarðinn norðan Útburðarskálarhnjúks og með því móti sleppa Svínárhnjúknum.  

 

Með gott nesti í poka, heilan og styrkan kropp og veðurguðinn með sér í liði þá bíður þessi hringur upp á úrvals fjalladag. 


Athugasemdir

Nýjast