Samningur milli Norðurorku og TDK um nýtingu á glatvarma undirritaður

Eyþór Björnsson forstjóri Norðurorku hf. og Norbert Kardos rekstrarstjóri hjá TDK undirrita samningi…
Eyþór Björnsson forstjóri Norðurorku hf. og Norbert Kardos rekstrarstjóri hjá TDK undirrita samninginn. Mynd no.is

Í vikunni var skrifað undir samning á milli Norðurorku hf. og aflþynnuverksmiðju TDK við Krossanes um nýtingu glatvarma frá verksmiðjunni. Samningurinn byggir á viljayfirlýsingu sem sömu aðilar gerðu sín á milli í mars á síðasta ári. Glatvarmi er ónýttur varmi eða orka sem hægt er að fanga og virkja í stað þess að hann streymi frá fyrirtækjum. Glatvarminn frá TDK verður nýttur til upphitunar á bakrásarvatni úr kerfum Norðurorku.

Gert er ráð fyrir því að þessi “virkjun” muni geta skilað allt að 10 MW í afli inn í kerfið til að byrja með en til samanburðar er hámarksafl hitaveitunnar á Akureyri um 100 MW. Gert er ráð fyrir að samsvarandi orkuvinnsla sé um 90 GWst á ári en varmaorka sem hitaveitukerfið flutti til notenda árið 2023 var 622 GWst. Aukning í orkunotkun milli ára hefur verið um 25 GWst undanfarin ár sem meðal annars kemur til vegna þeirrar miklu uppbyggingar sem hefur átt sér stað á starfssvæði Norðurorku. Gert er ráð fyrir að orkuvinnsla frá TDK muni aukast í takt við aukna notkun þar sem orkuflutningurinn takmarkast af magni þess bakrásarvatns sem er í boði en ný hverfi hafa verið og verða byggð upp með bakrásarkerfi. Einnig mun Norðurorka leita leiða til að auka söfnun bakrásarvatns í núverandi kerfum. Framkvæmdir eru hafnar og stefnt er að því að bakrásarvatn, upphitað í verksmiðju TDK, muni fara að streyma inn í kerfi Norðurorku í október á þessu ári.

Samstarfið við TDK er mikilvægur þáttur í öflun á heitu vatni og ef vel tekst til með nýtingu á glatvarma frá verksmiðjunni verður það mikil lyftistöng í rekstri hitaveitunnar. Undanfarin misseri og ár hefur Norðurorka ítrekað vakið athygli á því að hitaveitan sé komin að þolmörkum. Meira hefur verið lagt í rannsóknir og þurft að leita lengra í leit að orkustraumum, með tilheyrandi kostnaði, en um er að ræða tímafrek ferli sem krefjast mikils undirbúnings. Áfram verður haldið af fullum krafti í þeim tilgangi að sinna orkuþörf stækkandi samfélags.

Hér má einnig sjá eldri frétt sem Vikublaðið birti um verkefnið.

Það er heimasíða Norðurorku sem fyrst flutti þessa frétt

Nýjast