Sala á Velferðarstjörnunni skilaði um einni milljón króna í Velferðarsjóð Eyjafjarðarsvæðisins sem er samstarfsverkefni Hjálparstarfs kirkjunnar, Hjálpræðishersins á Akureyri, Mæðrastyrksnefndar Akureyrar og nágrennis og Rauða krossins við Eyjafjörð.
Velferðarstjarnan er nýtt verkefni unnið í samstarfi Glerártorgs og Slippsins, sem framleiddi stjörnuna, en Kristín Anna Kristjánsdóttir og Elva Ýr Kristjánsdóttir, verkefnastjórar markaðsmála á Glerártorgi hönnuðu stjörnuna.
Alls seldust um 300 stykki af velferðarstjörnunni, sem gaf um eina milljón króna í velferðarsjóðinn. „Þetta er mikilvæg viðbót við fjáröflunina okkar,“ segir Herdís Helgadóttir, formaður stjórnar sjóðsins á vefsíðu Glerártorgs. „Ekki bara upphæðin sjálf, þó hún skipti vissulega miklu máli, heldur er líka svo magnað að hugsa til þess hversu margir einstaklingar hafa styrkt söfnunina okkar með því að kaupa velferðarstjörnuna. Það er ómetanlegt að finna þennan mikla velvilja í garð sjóðsins.“
Langdýrasta jólaaðstoðin til þessa
Velferðarsjóðurinn aðstoðar efnaminni einstaklinga og fjölskyldur bæði fyrir jólin og á öðrum tíma árs en reynslan sýnir að eftirspurnin eftir aðstoð er mest í aðdraganda jólanna. Reglubundnar úthlutanir árið 2023 voru rúmlega 500 talsins, sem er mikil aukning frá síðustu árum. Umsóknir um jólaaðstoð fyrir nýliðin jól voru einnig um 500 talsins, sem er svipaður fjöldi og fyrir jólin 2022. Vegna mikilla verðhækkana í samfélaginu var ákveðið að hækka styrkupphæðir í jólaaðstoðinni. Því er ljóst að þó fjöldinn hafi verið svipaður árin 2022 og 2023, er jólaaðstoðin 2023 sú langdýrasta hingað til.