Fréttir

Nýrri göngu- og hjólabrú yfir Glerár hliðrað til um 50 metra

Fyrirhugaðri göngu- og hjólabrú yfir Glerá, vestan Hörgárbrautar, verður hliðrað til um 50 metra til austurs frá því sem áður var. 

Jónas Valdimarsson verkefnastjóri hönnunar hjá Akureyrarbæ segir að færslan á brúnni sé til komin vegna deiliskipulags Tryggvabrautar sem samþykkt var fyrir rúmu ári. Á því deiliskipulagi er m.a. gert ráð fyrir hringtorgi á gatnamótum Glerárgötu/Tryggvabrautar og staðsetning gönguþverunar yfir Borgarbraut ákveðin. Í eldra deiliskipulag yfir svæði Glerár frá árinu 2010 var brúin sýnd vestar og hitti því ekki á gönguþverunina. Deiliskipulögin tvö voru því að sögn Jónasar ekki að „tala saman“.

 Gönguleið yfir Glerárbrú aflögð 

 Núverandi gönguleið yfir vesturkant Glerárbrúar verður aflögð þegar nýja göngu-/hjólabrúin verður tekin í gagnið. „Það er líka hagur af því að færa brúna um þessa 50 metra til austurs miðað við fyrri tillögu. Nýja staðsetningin grípur vonandi betur gangandi/hjólandi sem fara niður Hörgárbrautina að vestan.“ segir Jónas.

Á deiliskipulaginu er einnig gert ráð fyrir undirgöngum undir Hörgárbrautina og segir Jónas þau lengi hafa verið þar, en nú sé verið að skoða nýja útfærslu með því að fara undir núverandi brú (austur-vestur). Komið hafi í ljós að það sé gerlegt, en lofthæð ekki ýkja mikil. Hæðarsetning á stígum og verðandi göngu- og hjólabrú mun taka mið af þessi pælingu um gönguleiðina undir Glerárbrúna.

 Stefnt er að því að bjóða út framkvæmdir við brúnna á komandi vori þannig að hægt verði að hefjast handa nú í sumar og gert ráð fyrir að framkvæmdum ljúki árið 2025. 

Framkvæmdir við aðra verkþætti verður, gangi allt upp,  boðnir út í byrjun árs 2025.

Lesa meira

Hvernig rannsökum við menningu?

Í apríl verður nýju námskeiði hleypt af stokkunum sem er afrakstur samvinnuþróunarverkefnis starfsfólks Háskólans á Akureyri, Háskólans á Bifröst og Byggðastofnunar. Námskeiðið er spennandi nýjung og ekki hefur áður verið boðið upp á sambærilegt námskeið á Íslandi. 

Sköpunarkrafturinn er orkugjafi 21. aldar

Menning og skapandi greinar (MSG) leika mikilvægt hlutverk í tæknibyltingu og alþjóðavæðingu samtímans. Fræðafólk í Evrópu hefur í auknum mæli beint athygli sinni að mikilvægi staðbundinna áhrifa MSG, ekki síst í landsbyggðum. Samspil MSG og nýsköpunar er einnig í brennidepli þar sem víðtæk samfélagsleg áhrif eru skoðuð samhliða tækniþróun.  

„Það er skortur á rannsóknum á áhrifum skapandi greina í landsbyggðum og von okkar sem komu að því að hanna námskeiðið er að á námskeiðinu muni kvikna hugmyndir að rannsóknarefni sem nemendur geti þá skoðað á meistara- og doktorsstigi.“ segir Sæunn Gísladóttir, sérfræðingur hjá RHA sem var í samstarfshópnum. Hún bætir við, „námskeiðið er hannað eftir því sem við töldum að þyrfti á Íslandi. Þörfin byggir að einhverju leyti á greiningu í skýrslu Rannsóknarsetursskapandi greina þar sem þekkingargöt voru kortlögð.“

Áhrif skapandi greina mikil á landsbyggðunum

„Ég held að við sjáum öll hvaða áhrif skapandi greina geta verið mikil á landsbyggðunum, til dæmis með nýlegum tökum á TrueDetective á Dalvík og í Keflavík og áhrif þess hvað varðar áhuga á Íslandi. Á námskeiðinu verður einmitt fyrirlestur um áhrif kvikmyndagerðar í landsbyggðum og þar fer Vera Vilhjálmsdóttir, sérfræðingur hjá Rannsóknamiðstöð Ferðamála, yfir kvikmyndatengda ferðaþjónustu og helstu birtingarmyndir hennar og við fáum einnig innlegg frá Leifi Dagfinnssyni, stofnanda True North.“ segir Sæunn aðspurð um einn af þeim hvötum sem urðu tilurð þessa námskeiðs.

Sérfræðingar víða að leggja verkefninu lið

Aðspurð um samstarfið segir Sæunn, „samstarfið hefur gengið vel og var ég fengin inn í verkefnið sem fulltrúi Háskólans á Akureyri. Það hefur verið gleðilegt hve mörg sem vinna á sviði skapandi greina á Norðurlandi voru tilbúin til að taka þátt í verkefninu og munum við meðal annars fá innlegg frá Þorvaldi Bjarna Þorvaldssyni, tónlistarstjóra Menningarfélags Akureyrar og Mörtu Nordal, leikhússtjóra Menningarfélags Akureyrar. Einnig munum við nýta þekkingu frá Háskólanum á Akureyri og mun Kjartan Sigurðsson, lektor við Viðskiptadeild, halda fyrirlestra um nýsköpun og skoða nýsköpunarhugtakið í tengslum við menningu og skapandi greinar. Það er mikilvægt að vita meira um áhrif skapandi greina í landsbyggðum og hvernig hægt sé að styðja betur við svo þær geti blómstrað enn meira. Einnig tel ég mikil tækifæri í að koma námskeiðum á laggirnar sem hönnuð eru með aðkomu nokkurra háskóla og stofnana þar sem fjölbreytt þekking nýtist frábærlega til að skapa spennandi nám.“

Námskeiðið er liður að stærra verkefni sem stutt var af Samstarfssjóði háskólanna árið 2023 og er ætlað að efla rannsóknavirkni á meistara- og doktorsstigi á sviði atvinnulífs menningar og skapandi greina. Aðrir samstarfsaðilar eru Háskóli Íslands og Hagstofa Íslands og stendur fyrir dyrum að þróa námskeið um hagtölu- og hagskýrslulæsi með þeim auk þess sem möguleikar á samstarfi við stofnanir og einkafyrirtæki um stuðning við doktorsrannsóknir verða kortlagðir.

Námskeiðið fer fram á netinu í einni staðlotu dagana 22. apríl til 5. júlí. Skráningar hefjast 1. febrúar og lýkur 1. mars nk.

Frekari upplýsingar um námskeiðið og skráningu má finna í gegnum QR kóðann á myndinni.

Lesa meira

Lokaorðið - Eftirstöðvarnar

 Það eru allir undir sömu sökina seldir, hugsa með hrolli til Kóvid-tímans. Við hristum af okkur minningar um pestarhræðslu, innilokun, samkomutakmarkanir, örugga fjarlægð, Víðihlýðni, spritt, grímur og hanska. Myndir af heilgölluðum læknum og hjúkrunarfræðingum. Óttann við símtal frá smitrakningarteyminu.

Þó var ekki allt alslæmt. Foreldrar lærðu að meta betur störf kennara og leikskólakennara. Börn voru hraustari, enginn dirfðist að senda barn með hor í skóla eða leikskóla. Aðrar pestir létu lítið á sér kræla, þökk sé handþvottinum og sprittinu. Og nú kunna allir að nota Zoom og Teams, fjarfundir og streymi eru einfalt mál. Tvímælalaust stærsti ávinningurinn.

Börnin voru fljót að tileinka sér sóttvarnarsiði. Ég ákvað að nýta mér ástandið og taldi örverpinu trú um að jólasveinninn væri í sóttkví og af miklum klókindum var það útskýrt fyrir barninu að skórinn yrði að vera í stofuglugganum því rúm barnsins væri of nálægt glugganum. Þóttust foreldrarnir aldeilis hafa snúið skódæminu jólasveininum í vil.

Drengurinn setti dýrindis piparkökur í skóinn handa aumingja jólasveininum í sóttkvínni. Það sem jólasveinninn vissi ekki var að, í sóttvarnarskyni, höfðu piparkökurnar verið úðaðar með spritti. Umtalsverðu magni, líklega til að gæta fyllsta öryggis.

Þar sem tveir jólasveinar stóðu skyrpandi, bölvandi og ragnandi á stofugólfinu, þá og einmitt þá sameinuðust Höfðahjón í einlægu hatri á bæði veiru og öllum sóttvarnaraðgerðum.

Spritt hefur ekki verið haft hér uppi á borðum síðan þá.

Lesa meira

Búfesti skilar inn lóðum við Þursaholt 2 til 12

„Það hefur ekki verið tekin nein ákvörðun um hvað við gerum við lóðina, hvort hún verður auglýst aftur eins og hún er eða hvort við skoðum mögulegar breytingar,“ segir Pétur Ingi Haraldsson skipulagsfulltrúi  Akureyrarbæjar um lóðina Þursaholt 2 til 12.

Lesa meira

Ný tillaga að fjölbýlishúsi við Norðurtorg

Lögð hefur verið fram ný tillaga að fjölbýlishúsi við Norðurtorg, uppfærð í takt við athugasemdir frá bæjaryfirvöldum. Samkvæmt nýrri hugmynd er byggingin staðsett fjærst núverandi íbúðabyggð, handan Austursíðu og er húsinu skipt í tvo arma sem saman mynda skjólgóðan og gróðursælan garð til suður og vesturs að Austursíðu og byggðinni í Síðuhverfi.

Skipulagsráð hefur tekið jákvætt í erindi og falið skipulagsfulltrúa að hefja vinnu við breytingu á aðalskipulagi svæðisins sem felur í sér breytta landnotkun í verslun og þjónustu með heimild fyrir íbúðir.

Fram kemur í erindinu sem Úti og inni arkitektar og Norðurtorg ehf senda inn að miðhluti hússins verði fimm hæðir en þrjár til fjórar hæðir út til hliðanna. Bílakjallari verður undir húsinu og á jarðhæð sem fellur inn í landi gæti mögulega verið verslun eða þjónustu af einhverju tagi.

Fjölbýlishús á umferðareyju

Sindri Kristjánsson fulltrúi Samfylkingar í Skipulagsráði hefur áður lýst efasemdum vegna tillögurnnar en segir að með nýrri tillögu sé reyn að eyða eða draga verulega úr efasemdum. „Umhverfi tillögunnar er að einhverju leyti manneskjuvænni og vistlegri frá því sem áður var þó svo að enn hafi tillagan á sér það yfirbragð að mínu mati að reisa eigi fjölbýlishús á umferðareyju,“ segir í bókun Sindra. Aðrar efasemdir um tillöguna standi enn eftir að mestu. „Til að bregðast við skorti á íbúðamarki í bænum með auknu lóðaframboði eru fjölmörg önnur tækifæri, aðrar staðsetningar sem henta mun betur til íbúðauppbyggingar“segir einnig í bókun Sindra.

Lesa meira

Samkaup hafa uppi stór áform á Húsavík

„Ég hef séð umræðuna um að staðsetning framtíðar verslunarkjarna á Húsavík ætti að vera meira miðsvæðis og ég skil þá umræðu en hafa þarf í huga þá miklu umferð þungaflutninga sem svona verslunarmiðstöð krefst og því held ég að til lengri tíma litið sé þetta rétt niðurstaða.,“ segir Gunnar Egill Sigurðsson forstjóri Samkaupa.

Lesa meira

Vilja að börn læri fjármálalæsi í grunnskóla

Samtök fjármálafyrirtækja (SFF) lét nýverið gera könnun um fjármálalæsi en samtökin hafa verið að vinna að auknufjármálalæsi í skólum frá árinu 2011 og m.a. unnið að verkefninu Fjármálavit frá árinu 2015. Þá fengu þau  Landsamtök lífeyrissjóða í lið með sér árið 2017.

Lesa meira

Vignir Már Þormóðssson býður sig fram til embættis formanns KSÍ

Vignir Már Þormóðsson, fyrrum stjórnarmaður í KSÍ, hefur ákveðið að gefa kost á sér í kjöri formanns KSÍ sem fram fer á ársþingi sambandsins, 24. febrúar nk. Vignir sat í aðalstjórn KSÍ á árunum 2007 til 2019 og var áður formaður knattspyrnudeildar KA í tæp 7 ár.   Hann er i dag  varaformaður K.A.

Þá hefur hann síðustu tíu ár verið starfandi eftirlitsmaður knattspyrnuleikja á vegum UEFA, Knattspyrnusambands Evrópu.  

 „Ég þekki knattspyrnuhreyfinguna og innviði hennar vel, bæði hér heima og á alþjóðavísu, enda hefur íþróttin átt hug minn og hjarta frá því ég var ungur drengur. KSÍ gegnir afar veigamiklu samfélagslegu hlutverki en starfsemi sambandsins er umfangsmikil og teygir anga sína um allt land. Hlutverk sambandsins er meðal annars að vera andlit knattspyrnuhreyfingarinnar á Íslandi á afrekssviði með landsliðum sínum, sem hafa verið stolt okkar allra og borið hróður landsins um víða veröld.

Ekki síður gegnir KSÍ mikilvægu hlutverki í ræktun á veigamiklu uppeldis- og grasrótarstarfi inni í félögunum, sem er bæði ómetanlegt og viðurkennt. Formaður KSÍ á að sameina allt áhugafólk um íþróttina í eina breiðfylkingu – ég tel mig mjög hæfan í það hlutverk. Eftir að hafa velt stöðu mála gaumgæfilega fyrir mér síðustu vikur hef ég ákveðið að bjóða mig fram til formanns KSÍ á ársþingi sambandsins,“ segir Vignir Már Þormóðsson.

Lesa meira

Stefán Viðar skipstjóri á Snæfelli EA 310: „Þessar 45 mínútur á hæsta fjalli Suður-Ameríku voru hreint út sagt stórfenglegar“

Stefán Viðar Þórisson skipstjóri á frystitogara Samherja, Snæfelli EA 310, kleif í byrjun ársins hæsta fjall Suður-Ameríku, Aconcagua í Andes-fjallgarðinum, sem er 6.962 metrum yfir sjávarmáli. Stefán Viðar hefur farið í nokkra háfjallaleiðangra á undanförnum árum, meðal annars klifið Kilimanjaro (5.895 m) og Mount Meru (4.562 m) í Tansaníu.

Aconcagua er einn af „Tindunum sjö“, sem eru hæstu fjöll heimsálfanna sjö og er Kilimanjaro í þessum sjö fjalla hópi.

Stefán Viðar sem býr á Reyðarfirði hefur alla tíð heillast af fjallgöngu, sem hann stundaði ungur að árum og eftir smá hlé var byrjað aftur og síðustu árin hefur stefnan verið sett á heimsfræga tinda.

Lesa meira

Óhentug og hreinlega hættuleg bílastæði við Glerárskóla og Klappir

„Þessi staða er hörmuleg. Ég trúi ekki öðru en að allir séu sammála um að það þurfi að auka öryggi barna sem koma að þessum skólum og bæta aðgengið,“ segir Anna Egilsdóttir móðir barna í Glerárskóla, en hún vakti athygli á hversu óhentug bílastæði eru við Glerárskóla, Klappir og Árholt í færslu í hóp íbúa í Holta- og Hlíðahverfi í vikunni.  Hún  segir þau hreinlega hættuleg líkt og þeir viti sem þar eru á ferð að morgni fyrir skólabyrjun viti.

Lesa meira