Í apríl verður nýju námskeiði hleypt af stokkunum sem er afrakstur samvinnuþróunarverkefnis starfsfólks Háskólans á Akureyri, Háskólans á Bifröst og Byggðastofnunar. Námskeiðið er spennandi nýjung og ekki hefur áður verið boðið upp á sambærilegt námskeið á Íslandi.
Sköpunarkrafturinn er orkugjafi 21. aldar
Menning og skapandi greinar (MSG) leika mikilvægt hlutverk í tæknibyltingu og alþjóðavæðingu samtímans. Fræðafólk í Evrópu hefur í auknum mæli beint athygli sinni að mikilvægi staðbundinna áhrifa MSG, ekki síst í landsbyggðum. Samspil MSG og nýsköpunar er einnig í brennidepli þar sem víðtæk samfélagsleg áhrif eru skoðuð samhliða tækniþróun.
„Það er skortur á rannsóknum á áhrifum skapandi greina í landsbyggðum og von okkar sem komu að því að hanna námskeiðið er að á námskeiðinu muni kvikna hugmyndir að rannsóknarefni sem nemendur geti þá skoðað á meistara- og doktorsstigi.“ segir Sæunn Gísladóttir, sérfræðingur hjá RHA sem var í samstarfshópnum. Hún bætir við, „námskeiðið er hannað eftir því sem við töldum að þyrfti á Íslandi. Þörfin byggir að einhverju leyti á greiningu í skýrslu Rannsóknarsetursskapandi greina þar sem þekkingargöt voru kortlögð.“
Áhrif skapandi greina mikil á landsbyggðunum
„Ég held að við sjáum öll hvaða áhrif skapandi greina geta verið mikil á landsbyggðunum, til dæmis með nýlegum tökum á TrueDetective á Dalvík og í Keflavík og áhrif þess hvað varðar áhuga á Íslandi. Á námskeiðinu verður einmitt fyrirlestur um áhrif kvikmyndagerðar í landsbyggðum og þar fer Vera Vilhjálmsdóttir, sérfræðingur hjá Rannsóknamiðstöð Ferðamála, yfir kvikmyndatengda ferðaþjónustu og helstu birtingarmyndir hennar og við fáum einnig innlegg frá Leifi Dagfinnssyni, stofnanda True North.“ segir Sæunn aðspurð um einn af þeim hvötum sem urðu tilurð þessa námskeiðs.
Sérfræðingar víða að leggja verkefninu lið
Aðspurð um samstarfið segir Sæunn, „samstarfið hefur gengið vel og var ég fengin inn í verkefnið sem fulltrúi Háskólans á Akureyri. Það hefur verið gleðilegt hve mörg sem vinna á sviði skapandi greina á Norðurlandi voru tilbúin til að taka þátt í verkefninu og munum við meðal annars fá innlegg frá Þorvaldi Bjarna Þorvaldssyni, tónlistarstjóra Menningarfélags Akureyrar og Mörtu Nordal, leikhússtjóra Menningarfélags Akureyrar. Einnig munum við nýta þekkingu frá Háskólanum á Akureyri og mun Kjartan Sigurðsson, lektor við Viðskiptadeild, halda fyrirlestra um nýsköpun og skoða nýsköpunarhugtakið í tengslum við menningu og skapandi greinar. Það er mikilvægt að vita meira um áhrif skapandi greina í landsbyggðum og hvernig hægt sé að styðja betur við svo þær geti blómstrað enn meira. Einnig tel ég mikil tækifæri í að koma námskeiðum á laggirnar sem hönnuð eru með aðkomu nokkurra háskóla og stofnana þar sem fjölbreytt þekking nýtist frábærlega til að skapa spennandi nám.“
Námskeiðið er liður að stærra verkefni sem stutt var af Samstarfssjóði háskólanna árið 2023 og er ætlað að efla rannsóknavirkni á meistara- og doktorsstigi á sviði atvinnulífs menningar og skapandi greina. Aðrir samstarfsaðilar eru Háskóli Íslands og Hagstofa Íslands og stendur fyrir dyrum að þróa námskeið um hagtölu- og hagskýrslulæsi með þeim auk þess sem möguleikar á samstarfi við stofnanir og einkafyrirtæki um stuðning við doktorsrannsóknir verða kortlagðir.
Námskeiðið fer fram á netinu í einni staðlotu dagana 22. apríl til 5. júlí. Skráningar hefjast 1. febrúar og lýkur 1. mars nk.
Frekari upplýsingar um námskeiðið og skráningu má finna í gegnum QR kóðann á myndinni.