Fréttir

Nýr kjarasamningur á milli Sjómannasambands Íslands og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi undirritaður

Nýr kjarasamningur á milli Sjómannasambands Íslands og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) var undirritaður í dag í húsnæði Ríkissáttasemjara. Samningar á milli aðila hafa verið lausir frá árinu 2019. Árið 2023 var nýr kjarasamningur felldur í atkvæðagreiðslu sjómanna.
Samningaviðræður um nýjan samning hafa staðið yfir síðustu mánuði. Í þeim viðræðum var lögð mikil áhersla á að taka tillit til þeirra athugasemda og gagnrýni sem fram kom í umræðum um samninginn á síðasta ári og hefur það gengið eftir í helstu atriðum.


Nú að lokinni undirritun verða samningarnir kynntir ítarlega fyrir félagsmönnum og að því loknu hefst rafræn atkvæðagreiðsla 12. febrúar kl. 12:00 og lýkur föstudaginn 16. febrúar kl. 15:00

Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambandsins:
„Við erum núna í þeirri stöðu að vera með kjarasamning í höndunum sem við höfum undirritað og er að fara í atkvæðagreiðslu hjá sjómönnum innan okkar félaga. Að mínu mati er þetta góður samningur og við höfum náð að semja um flest þau atriði sem gagnrýnd voru í samningnum sem var felldur í fyrra. Núna eru sjómenn í góðri stöðu til að samþykkja samning sem verður með binditíma í 5 ár og ég vonast eftir því að samningurinn verði samþykktur“.

Breytingar á binditíma, uppsagnarákvæði og fleiri breytingar
Í nýja samningnum er binditími samningsins styttur verulega eða úr 10 árum í 5 ár. Það felur í sér að sjómenn geta sagt samningnum upp eftir 5 ár og svo aftur eftir 7 ár. Þetta er gundvallarbreyting á samningnum.

Önnur mikilvæg breyting er að grein 1.39 í samningnum hefur verið breytt. Tekið er út að samningsbundinn gerðardómur leysi úr ágreiningi sem komið getur upp milli aðila vegna ákvæðisins. Í staðinn skipa samningsaðilar hlutlausa óvinhalla nefnd sem hefur það hlutverk. Ef ekki næst samkomulag um nefndarmenn mun Ríkissáttasemjari koma að skipan nefndarmanna.

Þá má finna mikilvæga breytingu um ísun yfir kör sem fara í gáma til sölu erlendis og verður sú ísun ekki á hendi skipverja nema í neyðartilvikum, samkvæmt nýjum samningi. Útgerðarmenn eiga að semja við löndunargengi á staðnum um að ísa yfir körin sem fara í gámana, eigi skipverjar frí við löndun skv. kjarasamningi. Ef sjómenn sjá um yfirísun sjálfir í neyðartilfellum fár þeir greidda yfirvinnu fyrir.

Í samningunum nú er að finna sambærilegt ákvæði og var í síðasta samningi um að framlag í lífeyrissjóð geti hækkað úr 12,0% í 15,5% en sjómenn hafa þó val um þetta atriði.

Sjómenn fá 400.000 króna eingreiðslu frá útgerðarfyrirtækjum ef samningur verður samþykktur. Þetta er viðbót frá fyrri samningi sem skiptir máli. Kemur til greiðslu 1. mars 2024.

Desemberuppbót kemur inn í samninginn þann 15. desember 2028. Miðað verður við 160 lögskráningardaga á ári.
Nánari upplýsingar um kjarasamningana má finna á vefsvæði Sjómannasambandsins og facebooksíðu sambandsins www.ssi.is og https://www.facebook.com/sjomannasamband

Lesa meira

Úthluta landi vegna skógræktar við Saltvík

Sveitarstjórn Norðurþings samþykkti á dögunum tillögu Skipulags- og framkvæmdaráðs um að Yggdrasil Carbon verði úthlutað landi skv. fyrirliggjandi tillögu í stað þess lands sem Minjastofnun telur tilefni til að vernda. Nýr samningur um landafnot verði til samræmis við ákvæði fyrirliggjandi samnings, sem hins vegar úreldist með nýjum samningi.

Lesa meira

Tvær nýjar í hópinn hjá Þór/KA

Þór/KA hefur samið við tvær knattspyrnukonur sem munu leika með liðinu í Bestu deildinni á komandi sumri. Með ráðningu þessara leikmanna er markmið félagsins að styrkja og stækka hópinn, auka breiddina og ekki síst að fá inn reynda leikmenn til að æfa og spila við hlið hinna ungu leikmanna sem koma fram á sjónarsviðið í meistaraflokki úr yngri flokkum félagsins á hverju ári.

Lidija Kuliš (1992) er landsliðskona Bosníu-Herzegóvínu og kemur til félagsins frá Split í Króatíu. Áður hafði hún verið um hjá Turbine Potsdam um árabil, en eftir það einnig hjá Glasgow City, AC Milan, Ferencváros og nú síðast Split. Lidija segir ákvörðun sína um að koma til Íslands tengjast bæði fótboltanum og landinu. „Ég elska veturinn og náttúruna,“ sagði Lidija spurð um ástæður þess að hún ákvað að koma til Íslands til að spila fótbolta. „Það er ein af ástæðum þess að ég ákvað að koma til Íslands. Auðvitað er svo líka það að upplifa það að spila í íslensku deildinni og að hjálpa liðinu að ná frábærum úrslitum. Ég hef fengið tækifæri til að spila með íslenskum leikmönnum með fyrri félögum sem ég hef verið hjá svo ég hef heyrt margt gott um íslenskan fótbolta og Ísland sem land og hlakka virkilega til að hitta nýju liðsfélagana og starfsfólkið og komast af stað á æfingum.“

Lara Ivanuša (1997) er slóvensk landsliðskona og kemur til félagsins frá Split í Króatíu. Áður hafði hún meðal annars verið hjá Glasgow City og Ferencváros. Lara hlakkar líka til að koma til Íslands. „Ég hef séð að Ísland er fallegt land og margt að sjá. Ég hef líka heyrt margt jákvæt og gott um lífið og fótboltann frá fyrrum liðsfélaga sem spilaði á Íslandi,“ segir Lara. „Ég hlakka til að hitta liðið og mynda sambönd innan og utan vallar og hjálpa liðinu að ná markmiðum á leiktíðinni.“ Jóhann Kristinn Gunnarsson, þjálfari Þórs/KA, vill láta verkin tala og leyfa leikmönnum að sanna sig á vellinum. „Við erum mjög ánægð með að fá þær til okkar fyrir spennandi tímabil 2024. Lara og Lidija færa okkur mikla reynslu úr atvinnumennskunni og eru áræðnar, ákveðnar og geta leyst margar stöður á vellinum. Við bindum að sjálfsögðu miklar vonir við að þær styrki okkar flotta lið enn frekar og vitum að þær eiga eftir að falla vel inn í hópinn. Við látum það vera að mæra þær mikið á þessum tímapunkti og leyfum þeim bara að sanna sig á vellinum.“

Þór/KA býður nýju leikmennina velkomna í okkar öfluga hóp.

Segir í tilkynningu frá stjórn  Þór/KA

Lesa meira

Um barna og unglingastarf í Akureyrarkirkju

Í Akureyrarkirkju boðið er upp á fjölbreyttar samverur og starf fyrir yngri kynslóðina, allt frá Krílasálmum fyrir ungabörn til unglinga í æskulýðsfélaginu. Breiddinn í starfinu er nauðsynleg enda söfnuðurinn fjölmennur og að sama skapi fjölbreyttur. Í brúnni standa Sonja Kro, æskulýðsfulltrúi, og Sigrún Magna Þórsteinsdóttir, organisti, og stýra þessi starfi af alúð og fagmennsku.

Undir hatt Sonju falla Sunnudagaskóli, Foreldramorgnar, Kirkjukrakkar (1-4. bekkur), TTT (5-7. bekkur) og ÆFAK (8-10. bekkur). Sigrún Magna stýrir yngri og eldri barnakór Akureyrarkirkju. Samtals eru sjö samverustundir í boði sem eru sniðnar að aldri, þörfum, getu og áhuga þátttakenda. 

Lesa meira

Félagsmenn í Framsýn Um 97 milljónir í sjúkrastyrki í fyrra

Félagsmenn í Framsýn fengu samkvæmt bráðabirgðatölum greiddar um 97 milljónir króna frá félaginu árið 2023 í sjúkrastyrki og sjúkradagpeningar vegna langvarandi veikinda, þ.e. eftir að kjarasamningsbundnum rétt þeirra var lokið hjá viðkomandi fyrirtæki.

Í heildina bárust 1.389 umsóknir í sjóðinn. Innan Framsýnar eru rúmlega 3.400 félagsmenn.

Sjúkrasjóðurinn hefur komið að því að greiða niður kostnað fyrir félagsmenn m.a. sálfræðiþjónustu, sjúkraþjálfun, heilsurækt, útfararkostnað, krabbameinsskoðun, áhættumat hjá hjartavernd, göngugreiningu, viðtalstíma hjá fjölskylduráðgjöfum og kostnað vegna gleraugnakaupa og kaupa á heyrnatækjum. Þá eiga félagsmenn einnig rétt á fæðingarstyrk frá félaginu sem og fleiri styrkjum sem hægt er að fræðast betur um á heimasíðu stéttarfélaganna; framsyn.is.

Reiknað er með að tekjur sjóðsins í gegnum iðgjöld verði rúmlega 100 milljónir á árinu 2023, þannig að hann komi til með að standa undir þeim skuldbindingum er tengjast útgreiðslum úr sjúkrasjóðnum. Niðurstöðutölur vegna ársins liggja ekki fyrir.

 

Lesa meira

Listasafnið á Akureyri: Þriðjudagsfyrirlestur - Ýr Jóhannsdóttir

Þriðjudaginn 6. febrúar kl. 17-17.40 heldur Ýr Jóhannsdóttir, textílhönnuður og myndlistarkona, fyrsta Þriðjudagsfyrirlestur ársins undir yfirskriftinni Kynning á verkefnum Ýrúrarí. Aðgangur er ókeypis. 

Á fyrirlestrinum fer Ýr yfir ýmis verk og verkefni sem hún hefur unnið að undir nafninu Ýrúrarí. Verkin einkennast af húmor og leikgleði sem lífga upp á hversdaginn þar sem gamlar flíkur öðlast nýtt líf sem gangandi listaverk. Meðal annars verður farið yfir verkefnin Peysa með öllu, sem unnið var í samstarfi með fatasöfnun Rauða Krossins, PizzaTime með stúdíó Fléttu, sem vann Hönnunarverðlaun Íslands fyrir verk ársins 2023, sýninguna Nærvera frá 2023, skapandi fataviðgerðarsmiðjur og fleiri verkefni af ferlinum. 

Ýr Jóhannsdóttir lærði textílhönnun í Myndlistaskólanum í Reykjavík og Glasgow School of Art og kláraði meistaranám í listkennslu við Listaháskóla Íslands haustið 2021. Prjónaverk Ýrúrarí hafa m.a fengið umfjöllun á Vogue.com, Colossal, Dezeen og fleiri miðlum. Einnig má finna verk Ýrar í safneign The National Museums of Scotland, Textiel Museum, Museum fur Kunst und Gewerbe, International Folk Museum og Hönnunarsafni Íslands. Auk þess hafa verk eftir Ýri verið sýnd í Listasafni Reykjavíkur, Hönnunarsafni Íslands, Nordatlantens brygge og Smithsonian Design Museum. Nokkur verk leynast einnig í einkaeign listafólksins Erykah Badu, Wayne Coyne, Miley Cyrus og Noel Fielding. 

Fyrirlestraröðin er samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Verkmenntaskólans á Akureyri, Gilfélagsins og Myndlistarfélagsins á Akureyri. Aðrir fyrirlesarar vetrarins eru Sanna Vatanen, textílhönnuður, Heiða Björk Vilhjálmsdóttir, safnfræðslufulltrúi, Guðrún Hadda Bjarnadóttir, handverks- og myndlistarkona, Joris Rademaker, myndlistarmaður, Pablo Hannon, hönnuður og listamaður, Donat Prekorogja, myndlistarmaður, og Egill Logi Jónasson, myndlistarmaður.

Lesa meira

Lóðir við Hofsbót 1 og 2 lágmarksboð í lóðirnar er 263,3 milljónir króna

„Það er erfitt að segja fyrir um hver áhuginn kann að verða en um tíðina hafa margir sýnt uppbyggingu í miðbænum mikinn áhuga,“ segir Pétur Ingi Haraldsson skipulagsfulltrúi Akureyrarbæjar. Bæjarráð hefur samþykkt að auglýsa tvær lóðir við Hofsbót, númer 1 og 3. Lágmarksboð samkvæmt útboðsskilmálum er ríflega 263 milljónir króna í báðar lóðir.

Pétur Ingi segir að ekki liggi enn fyrir nákvæm dagsetning á því hvenær lóðir verði auglýstar, en gerir ráð fyrir að það verði í febrúar til mars næstkomandi.

Talsverð uppbygging íbúða er um þessar mundir í miðbænum, nokkrar nýjar íbúðir eru við Skipagötu, 10 nýjar íbúðir verða í húsi  sem nú er í byggingu við Hofsbót 2, við Nýja bíó og á eru um 60 íbúðir í byggingu við Austurbrú.

Hæstu húsin verða fimm hæðir

Húsin sem reist verða á svæðinu við Hofsbót verða mismunandi há, þau hæstu fimm hæðir en önnur lægri. Á báðum lóðum er gert ráð fyrir verslun- og þjónustu á jarðhæð og íbúðum á efri hæðum. Þó er gert ráð fyrir að atvinnustarfsemi sé heimil á annarri hæð. Gert er ráð fyrir sameiginlegum bílakjallara fyrir Hofsbót 1 og 3 með inn- og útakstri frá Strandgötu.

Lesa meira

Fastir ánægjulegir liðir eins og venjulega - Kvenna og karlalið Skautafélags Akureyrar deildarmeistarar

Það er margt sem við tökum eftir á þessum árstíma, skref fyrir skref lengir daginn, það kallar á leit að sólgleraugum, lestur á Passíusálmunum hefst í útvarpinu og það sem alls ekki klikkar, lið Skautafélags Akureyrar vinnur deildarmeistaratitila kvenna og karla.

Það var einmitt það sem gerðist í kvöld þegar þessir góðu titlar skiluðu sér heim. 

Innilega til hamingju skautafólk!

Þórir Tryggvason lét sig að sjálfsögðu ekki vanta og hann tók meðfylgjandi myndir.

 

Lesa meira

,,Höfum stillt upp spennandi ári með fjölbreyttum og áhugaverðum sýningum"

„Það verður erfitt að toppa síðasta ár en við reynum okkar besta,“ segir Hlynur Hallsson safnstjóri Listasafnsins á Akureyri. Safnið fagnaði 30 ára afmæli sínu í fyrra og var mikið um dýrðir í kringum þau tímamót. Aðsóknin jókst mjög mikið á árinu og aldrei hafa jafn margir gestir lagt leið sína í safnið, en sýning Ragnars Kjartanssonar, The Visitors, naut mikillar hylli og komu margir víða að gagngert til að sjá hana. Fram undan er nýtt starfsár sem hófst formlega með opnun þriggja nýrra sýninga um liðna helgi.

Lesa meira

Forðumst slysin – nýtum tækifærin

Reinhard Reynisson skrifar um staðsetningu nýrrar dagvöruverslunar á Húsavík

Lesa meira