„Það er augljóst að áhyggjur okkar félagsmanna af sínum kjörum fara vaxandi, vissulega er misjafnt á milli manna hver kjörin eru, en það eru allir sammála um að skerðingar Tryggingastofnunar á lífeyrisgreiðslum eru óréttlátar og fyrir því finna allir,“ segir Karl Erlendsson formaður Félags eldri borgara á Akureyri. Félagið hélt á dögunum fund um kjaramál og var mæting einkar góð, um 200 manns mættu til að hlýða á framsögur og taka þátt í umræðum. Stofnaður hefur verið kjarahópur innan félagsins sem vinna á að bættum kjörum eldri borgara á svæðinu en mikilvægt þykir að rödd eyfirskra eldri borgara heyrist í umræðunni um málefni þeirra.