Margítrekuð tilmæli um tiltekt á lóðum hundsuð

Nær daglega berast kvartanir vegna bíla sem lagt er hér og hvar á Akureyri og stundum margar á dag  …
Nær daglega berast kvartanir vegna bíla sem lagt er hér og hvar á Akureyri og stundum margar á dag Myndir HNE

Slæm umgengni á lóðum við Hamragerði á Akureyri, Setbergi á Svalbarðsströnd og nú síðast við Krossanes sem og númerslausir og afskráðir bílar innanbæjar á Akureyri, „eru allt saman kaflar í sömu sorgarsögunni sem fyrir löngu er orðin alltof löng,“ segir Leifur Þorkelsson framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra.

HNE hefur um árabil barist fyrir tiltekt og bættri umgengni í Hamragerði og á Setbergi, dagsektir hafa verið lagðar á en þær eru ekki greiddar og heldur er ekki staðið við gefin áform um tiltekt á svæðinu. Dagsektir vegna Hamragerðis hafa verið lagaðar á lóðarhafa í rúmt ár, en frá því í október varðandi Setberg þar sem fyrirtækið Autó er með bækistöð.

Óþolandi fyrir íbúa og almenning

„Þrátt fyrir að fyrirtækið hafi fengið tímabundin afnot af lóð við Krossanes hefur ekki dregið úr fjölda númerslausra bíla á vegum fyrirtækisins innan bæjarmarka Akureyrar. Nær daglega berast kvartanir vegna bíla og stundum margar á dag. Þetta ástand er orðið óþolandi fyrir íbúa og almenning,“ segir hann.

Bílarnir eru fluttir reglulega á milli staða í bænum, flestum til ama

Undanfarin 5 ár hafa nær 100 bílar á vegum Auto ehf. verið fluttir í geymsluport eftir álímingu, með tilheyrandi kostnaði. Margfalt fleiri bílar hafa verið fluttir reglulega til milli staða innanbæjar. „Hver tilgangur fyrirtækisins er með þessari háttsemi er óljós en gróflega áætlað hefur það greitt tæpar 3 milljónir króna vegna flutnings og geymslu á bílum á þessu tímabili.“

Mengunar- og slysahætta í lóð við Krossanes

Leifur bendir á að þeir bílar sem eru á lóðinni við Krossanes séu í slæmu ásigkomulagi og af þeim stafi bæði mengunar- og slysahætta. „Það er því afar mikilvægt að hreinsa þá lóð og koma úrgangi í viðeigandi förgun.“ Heilbrigðisnefnd telur að samningur um afnotin af lóðinni hafi ekki skilað þeim árangri sem að var stefnt, að fækka númerslausum bílum á vegum fyrirtækisins í bæjarlandinu. Nefndin gerir kröfu um að hreinsun á lóðinni verði lokið fyrir 1. júní næstkomandi.

Bílar á lóðinni við Krossanes eru í slæmu ásigkomulagi og af þeim stafar bæði mengunar- og slysahætta

Langt og svifaseint innheimtuferli

Hvorki hafa verið greiddar dagsektir vegna Hamragerðis né heldur Setbergs. „Dagsektir eru í rauninni ekki hugsaðar sem refsing fyrir brot, þrátt fyrir að þær geti vissulega virkað sem refsing. Dagsektir eru þvingunarúrræði og tilgangurinn fyrst og fremst sá að þvinga aðila til að fara að lögum og stjórnvaldsákvörðunum,“ segir Leifur og bætir við að heilbrigðiseftirlit og sveitarfélög hafi ekki heimild til að refsa fyrir brot á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir með því að leggja á stjórnvaldsektir, en þær séu öflugra vopn. Dagsektir séu lagðar á daglega þar til úrbætur hafa farið fram, upphæðin sé fremur lág og eru þeir sendir nokkuð ört. Heilbrigðisnefndin kveðst undrast hversu langt og svifaseint innheimtuferlið sé og það torveldi eftirfylgni.

Nýjast