Gyltubúið að Sölvastöðum Eyjafjarðarsveit tekið til starfa Ávinningur af því að halda framleiðslunni fyrir norðan
„Þetta var virkilega ánægjulegur dagur og mjög góð mæting,“ segir Ingvi Stefánsson svínabóndi sem bauð gestum að líta við á nýju gyltubúi á Sölvastöðum í Eyjafjarðarsveit. Þar var þeim áfanga fagnað að fyrstu dýrin voru á leið inn í húsið daginn eftir og búið að komast í rekstur.
„Við vissum af áhuga fyrir þessari framkvæmd en móttökur fóru fram úr mínum björtustu vonum, við áttum alls ekki von á þeim fjölda sem kom til okkar, skoðaði og kynnti sér málið. Það er virkilega gaman að skynja hvað fólk var áhugasamt að fræðast um svínaræktina,“ segir Ingvi.
Að verkefninu standa Svínabúið í Teigi, Kjarnafæði/Norðlenska og Bústólpi. Sölvastaðir eru á landi Torfna í Eyjafjarðarsveit og þar hafa verið reist tvö hús, um 3200 fermetrar í allt. Annað húsið er fyrir gylturnar en hitt fyrir fóðurblöndun og þar er einnig starfsmannaaðstaða.
Á búinu verða um 400 gyltur á hverjum tíma. „Þetta er eingöngu gyltubú og dýrin fara á önnur bú í áframeldi, en við stefnum að því að hér verði allt komið i fullan rekstur um næstu áramót,“ segir Ingvi.
Ingvi ásamt eldri syni sínum, Tristan Darri sem lokið hefur búfræðinámi og er áhugasamur um svínarækt.
Fáir eftir í svínarækt fyrir norðan
Hann segir að svínarækt sé smám saman að hverfa af Norðurlandi og sú staðreynd hafi ekki hvað síst verið kveikjan að umfangsmikilli uppbyggingu. „Við vonum að þetta bú eigi eftir að styðja við og fjölga afleiddum störfum á svæðinu. Það hefur nú hin síðari ár verið samdráttur á framleiðslu svínakjöts á Norðurlandi, en á sama tíma hefur eftirspurn aukist mikið,“ segir hann en margvíslegur ávinningur er af því að halda framleiðslunni innan fjórðungs í stað þess að flytja afurðir um langan veg annars staðar frá.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra leit við á Sölvastöðum. Hér er hún með Ingva Stefánssyni.
Aðbúnaður verði sem bestur
Ingvi segir að ný reglugerð um velferð svína taki gildi um komandi áramót. Hún sé mjög metnaðarfull og er almennt gengið lengra í þeirri reglugerð en í þeim löndum sem íslenskir svínabændur eru að keppa við um hillupláss verslana. „Við lögðum mikinn metnað í að hanna búið þannig að aðbúnaður bæði fyrir skepnur og menn væri sem allra bestur,“ segir Ingvi. Mikið er lagt upp úr því að gripir hafi nægt pláss og segir hann að gengið sé lengra en reglur segi til um varðandi stærð á gotstíum. „Reynslan hefur kennt manni að það sem er viðunandi núna verður það ekki eftir einn áratug eða tvo. Svo það er betra að hafa vaðið fyrir neðan sig og haft rúmt um gripina.“
Ekkert svínarí á þessum gyltum