Um kl. 18:30 í kvöld barst tilkynning um að karlmaður um tvítugt hefði fallið í Fnjóská nokkru ofan við ósa hennar, skammt frá Pálsgerði. Maðurinn var með þremur félögum sínum og hvarf hann þeim sjónum í ánni. Björgunarsveitir voru þegar kallaðar út ásamt þyrlu frá Landhelgisgæslunni.
Aðgerðarstjórn var virkjuð á Akureyri. Maðurinn er enn ófundinn en um 130 viðbragðsaðilar eru nú að störfum við leit að honum. Vettvangsstjórn hefur verið skipuð á vettvangi. Fimm leitardrónar eru notaðir og sérþjálfaðir straumvatnsbjörgunarmenn eru komnir á vettvang. Þá er von á leitarhundum.
Aðstæður á vettvangi eru erfiðar að því leyti að Fnjóská er nokkuð lituð á þessum slóðum en einnig vegna þess að í ósum hennar kvíslast hún mikið þannig að leitarsvæði er víðfeðmt og sums staðar er vatnið það grunnt að erfitt er að koma við tækjum við leitina.
Hér verður næst sett inn uppfærsla á framgangi aðgerðarinnar um miðnætti.