Tölum saman

Vilborg Gunnarsdóttir skrifar
Vilborg Gunnarsdóttir skrifar

Það getur verið erfitt að átta sig á því hvernig fólkinu í kringum okkur líður og því er mikilvægt að hafa augun opin fyrir ákveðnum merkjum. Er viðkomandi hættur að hafa samband eða svara símtölum og skilaboðum? Hefur viðkomandi breytt venjum sínum eins og hætt að koma í sund, mæta á fundi eða sinna félagsstörfum?

Er viðkomandi orðinn ólíkur sjálfum sér? Stundum höfum við á tilfinningunni að ekki sé allt með felldu. Treystum tilfinningunni og tölum við viðkomandi frekar en að sleppa því. Í versta falli veit viðkomandi að þér stendur ekki á sama.

Hefjum samtalið

Það getur verið vandræðalegt að hefja samtal við einhvern sem þig grunar að eigi erfitt. Sérstaklega ef við þekkjum viðkomandi ekki vel. Í því tilfelli getur verið gagnlegt að búa sér til ástæðu! Til dæmis ef þetta er nágranni þinn, þá getur þú fengið eitthvað lánað eða bankað upp á til að ræða um málefni hverfis eða húsfélags.

Ef illa stendur á hjá viðkomandi, þá skaltu bjóðast til að koma aftur í heimsókn síðar. Mundu að sýna yfirvegun og vertu í góðu jafnvægi þegar þú átt í samskiptum við viðkomandi. Láttu vita að þú hafir tekið eftir breytingu: „Það er langt síðan ég hef séð þig, hvernig hefur þú það?“

Þegar þú átt í samskiptum við einstakling sem þú vilt styðja er mikilvægt að hlusta. Þú þarft ekki að leysa vandann, bara vera til staðar og hlusta. Áhyggjur og vandamál fólks 

eru misjöfn og oft ólík okkar eigin. Haltu ró þinni, ekki flýta þér og ekki grípa fram í. Láttu vita að þú hafir áhyggjur og viljir hlusta.

Ef viðkomandi vill ekki tala?

Stundum neitar fólk því að eiga erfitt, jafnvel þó við höfum grun um annað. Þú getur þá sagt að þú hafir tekið eftir breytingu. „Þú ert ólíkur sjálfum þér. Ertu viss um að allt sé í lagi?“ Passaðu bara að ýta ekki of mikið á viðkomandi.

Félagsleg einangrun hefur aukist hjá öllum aldurshópum um allan heim. Það er hægt að hafa jákvæð áhrif á fólk með því að spyrja og hlusta. Nú þarf rúmlega miðaldra kona að viðurkenna að orðin hér að framan eru ekki „hennar“ heldur eru þau tekin beint upp úr glænýjum bæklingi um félagslega einangrun sem gefinn var út af Félags og húsnæðismálaráðuneytinu.

Þessi skilaboð eru bara það góð að sennilega verður aldrei hægt að gera nógu mikið til að sporna við einsemd og einangrun. Byrjum í dag og nálgumst einstakling sem við teljum að hafi einangrast.

Vilborg Gunnarsdóttir

Nýjast