27. nóvember - 4. desember - Tbl 48
Kortleggur erfðamengi rjúpunnar
Kristinn P. Magnússon, prófessor í sameindaerfðafræði við Háskólann á Akureyri, borðar ekki rjúpur um jólin en þekkir þær þó mun betur en aðrir.
„Við erum að leitast við því að leita orsaka stofnsveiflna rjúpunnar, með því að rýna í erfðamengi hennar sem við höfum nýraðgreint, rannsaka eiturefni í plöntum og áhrif þeirra á grasbítinn. Þá munum við tengja breytileika í örverusamfélögum við heilbrigði hennar. Með þessari breiðu vísindalegu nálgun munum við skilgreina ákveðin svæði eða gen í erfðamenginu sem tengjast náttúruvali /aðlögun vegna ólífræns og lífræns áreitis, sem geta hjálpað okkur að skilja framtíð rjúpunnar á Íslandi í hlýnandi loftslagi,“ segir Kristinn Pétur.
Verkefnið hófst árið 2020 og er unnið í samvinnu við fremstu sérfræðinga á Íslandi, í Bandaríkjunum og Svíþjóð og er styrkt af Rannís. Unnið er að því að kryfja til mergjar, skilja líffræði, vistfræði og þróunarsögu rjúpunnar.
Langar að lesa erfðamengið inn á hljóðbók
Erfðamengi rjúpunnar er búið til úr fjórum bókstöfum og ef það yrði sett á blað myndi bókaröðin spanna 40 bindi. Kristinn Pétur hefur ýjað að því að langa að gefa bókaröðina út sem hljóðbók enda væri auðvelt að sofna út frá lestrinum. En að öllu gamni slepptu þá má segja að með því að heilraðgreina einn fugl þá segir það ekki bara sögu þess fugls heldur sögu heillar tegundar, stofnstærðarsveiflur og þróun tegundarinnar og forfeðra hennar, orrafugla og hænsnfuga.
„Við gerum okkur vonir um að með rannsókninni getum við betur skilið stofnstærðarsveiflur rjúpunnar. Kannski er svarið í erfðamenginu. Svo getum við velt fyrir okkur hvað gerir íslensku rjúpuna svona einstaka og hvort hún muni lifa af næstu 50 árin á Íslandi og á Norðurslóðum,“ segir Kristinn Pétur að lokum.