,,Ákaflega ánægð með afgerandi niðurstöðu“ segir Björn Snæbjörnsson formaður Einingar Iðju á Akureyri
,,Við hjá Einingu-Iðju erum ákaflega ánægð með að okkar félagsmenn skildu kveða upp afgerandi niðurstöðu í kosningunni um samninginn. Tæp 84% þeirra sem kusu samþykktu hann og það segir okkur að við vorum að gera rétt með því að skrifa undir þennan skammtímasamning“ segir Björn Snæbjörnsson um nýja kjarasamninga sem samþykkt voru fyrr í dag. Eins og fyrr greindi hér voru samningarnir samþykktir með miklum meirihluta, já sögðu 83,93% nei sögðu 10,10% þeir sem ekki tóku afstöðu voru 5,97% Kjörsókn var 26,1%
,,Það voru skýr skilaboð frá okkar félögum, sem tóku þátt í undirbúningi kröfugerðar, að semja fljótt og að samningur tæki við að samningi og að launahækkanir yrðu til að auka kaupmátt. Það tókst. Það eru um 1500 manns sem tóku þátt í kröfugerðinni, bæði með beinum og óbeinum hætti í gegnum trúnaðarmannakerfið okkar sem er eitt besta hjá stéttarfélögum á Íslandi. Það er ánægjulegt að sjá þessi viðbrögð og ekki síst að fólk fái hækkanirnar nú fyrir áramót. Það auðveldar þeim að takast á við þær hækkanir sem yfir okkur hafa dunið“.
,,Það er líka jákvætt að sá áróður sem var í gangi á móti þessum samningi skilaði ekki árangri en það var mikið lagt á sig til að reyna að fella hann.“
,,Í mínum huga eiga menn að vinna vel fyrir sína félagsmenn og láta aðra í friði sem hafa kjark og þor til að láta verkin tala. Fjölmiðlaleikur skilar ekki árangri heldur að sitja við og halda viðsemjendum við efnið“.
Sagði Björn Snæbjörnsson formaður Einingar Iðju i samtali við vefinn.