Aðalfundur GA var haldinn 15. desember
Hagnaður ársins nam 13.977.911 kr. eftir fjármagnsliði samanborið við 26.300.107 kr. árið áður. Rekstartekjur voru tæpar 203 milljónir og rekstrartekjur ríflega 183 milljónir með afskriftum upp á tæplega 11,5 milljónir og lækkuðu skuldir klúbbsins töluvert á milli ára. EBITA rekstrarársins var 31 milljón samanborið við 42 milljónir árið áður og lækkar því um 26% á milli ára.
Kosið var til stjórnar GA en engin mótframboð til stjórnar bárust kosningarnefnd fyrir fund og voru þær Guðlaug María og Eygló kosnar áfram í stjórn og Finnur Bessi og Vigfús Ingi halda áfram sem varamenn í stjórn. Þá var Bjarni Þórhallsson endurkjörin formaður klúbbsins.
Borin var upp tillaga stjórnar um árgjöld fyrir 2023 sem var samþykkt á fundinum. Hér má sjá verðskrá GA fyrir árið 2023 en árgjöld hækka á milli ára og er innifalið í árgjaldi GA félaga eftirfarandi hlutir:
- Ótakmarkað spil á Jaðarsvelli
- Ótakmarkað spil á Dúddisen
- Aðgangur að inniaðstöðu GA í Golfhöllinni
- 25% afsláttur af kortum í golfhermi GA allt árið
- 15% afsláttur af boltakortum á Klappir
- Aðgangur af golfbílakortum GA
- Aðgangur af vinavöllum GA
Steindór fór yfir rekstraráætlun fyrir árið 2023 en í henni eru tekjur áætlaðar 218 milljónir samanborið við tæpar 203 á nýliðnu rekstrarári og gjöld áætluð 197 milljónir samanborið við rúmlega 183 árið 2022.
"Árið gekk mjög vel og Jaðarsvöllur bauð upp á frábærar aðstæður fyrir golfiðkun. Fjölgun var í klúbbnum og félagsmaðurinn hefur aldrei spilað jafn marga hringi og í ár sem er frábært að sjá. Mikil tilhlökkun er til næsta árs þar sem áframhaldandi vinna við að stækka og þróa starf GA."
„Áfram þarf þó að stíga varlega til jarðar og huga að hagkvæmni, ábyrgum rekstri og árangursríkum framfaraskrefum. Við hjá GA höfum frábært starfsfólk, sjálfboðaliða og félagsmenn sem mig langar að þakka fyrir gott ár og hlakka til nýs árs." - Steindór Kristinn Ragnarsson framkvæmdastjóri GA
Heiðar Davíð Bragason, yfirgolfkennari GA, veitti Háttvísisbikar GA og valdi einnig kylfing GA.
Valur Snær Guðmundsson fær háttvísisbikar GA, hann er búsettur á Húsavík en hefur æft með GA undanfarin þrjú ár og lækkað forgjöf sína úr 54 í 1,3. Valur er góð fyrirmynd fyrir yngri iðkendur klúbbsins, kurteis og flottur kylfingur.
Andrea Ýr Ásmundsdóttir er kylfingur GA 2022. Andrea var valin í landsliðshóp GSÍ núna í haust og hefur verið að spila stöðugt golf með sýnu liði í Elon háskólanum.
Þá veittu Bjarni og Steindór afreksmerki GA fyrir árið en það fá þeir sem hafa orðið Akureyrarmeistarar, Íslandsmeistarar eða valdir í landsliðshóp GSÍ á tímabilinu. Það voru þeir Heiðar Kató Finnsson og Eyþór Hrafnar Ketilsson sem fengu afreksmerki GA. Einnig voru veitt gull- og silfurmerki GA á fundinum til ötula sjálboðaliða klúbbsins sem hafa unnið gríðarlega mikið og óeigngjarnt starf fyrir golfklúbbinn. GA á gríðarlega sterkan hóp sjálfboðaliða sem leggur klúbbnum góða liðshönd á ári hverju. Eftirfarandi heiðursmenn fengu gull- og silfurmerki GA í gær:
Silfurmerki GA:
Hafberg Svansson
Heimir Finnsson
Karl Haraldur Bjarnason
Viðar Þorleifsson
Þorsteinn Konráðsson
Örn Viðar Arnarsson
Gullmerki GA:
Guðmundur E. Lárusson
Heimir Jóhannsson
Þórhallur Pálsson.
Frá þessu segir á heimasíðu Golfklúbbs Akureyrar