Staðsetning valin fyrir nýjan leikskóla á Húsavík

Mögulega mun rísa nýr leikskóli við hlið Framhaldsskólans á Húsavík. Mynd/epe.
Mögulega mun rísa nýr leikskóli við hlið Framhaldsskólans á Húsavík. Mynd/epe.

Sveitarstjórn Norðurþings hefur samþykkt að vísa tillögu um byggingu nýs leikskóla á Húsavík til frekari umfjöllunar í sveitarstjórn. Tillagan felur í sér að byggður verði leikskóli fyrir 4-6 ára gömul börn á lóð við hlið Framhaldsskólans að Stóragarði.

Skipaður var starfshópur um málið sem fékk jafnframt foreldra, starfsfólk og stjórnendur leikskólans Grænuvalla til samráðs. Hópurinn skilaði af sér þremur tillögum til fjölskylduráðs.

Í fyrsta lagi að byggja nýjan leikskóla fyrir 4-6 ára börn á lóð sveitarfélagsins við Framhaldsskólann að Stóragarði. Í öðru lagi að byggður yrði yngri barna leikskóli á sömu lóð og í þriðja lagi að byggður yrði yngri barna leikskóli á lóð við Hjarðarholtstún.

Fjölskylduráð tók ákvörðun um að farin yrði leið 1 og hefur sveitarstjórn nú samþykkt að tillagan verði tekin til frekari umfjöllunar í sveitarstjórn.

Helena Eydís Ingólfsdóttir, formaður fjölskylduráðs átti sæti í samráðshópnum en hún sagði að þegar kom að staðsetningu nýs leiksskóla komu fljótlega upp fjórar staðsetningar sem hópurinn leit til en lóðin við hlið Framhaldsskólans hafi verið valin sérstaklega þar sem hún fellur vel að starfsemi grunnskólans og ekki síður vegna nálægðar við samþættinguverkefni íþrótta og skólastarfs.

„Við leggjum jafnframt til að á grundvelli þeirra gagna sem við erum með um íbúafjölda og mögulega fjölgun barna á svæðinu að þetta verði fyrir eldri börn, það er að segja 4-6 ára. það er tillaga fjölskylduráðs til sveitarstjórnar sem við leggjum fram til atkvæða hér í dag,“ sagði Helena á fundi sveitarstjórnar í síðustu  viku.

Jafnframt var lögð fram aðgerðaráætlun í 14 liðum til fimm ára, Minnisblað starfshópsins má lesa HÉR.

 


Athugasemdir

Nýjast