Bændur víða að ljúka seinni slætti

Góð spretta en seint á ferð
Góð spretta en seint á ferð

„Það hefur verið mjög blautt undanfarna daga og vikur, mun meiri rigningar ern við eigum að venjast og það hefur gert bændum lífið leitt,“ segir Sigurgeir Hreinsson framkvæmdastjóri Búnaðarsambands Eyjafjarðar. Bændur eru víða í öðru slætti sumarsins, sem er nokkuð óvenjulegt miðað við mörg undafarin ár en þekktist áður fyrr. „Þessi bleytutíð hefur sannarlega sett strik í reikninginn,“ segir hann.

Sigurgeir segir ágústmánuð almennt hafa verið í blautara lagi miðað við veðurfar í landshlutanum almennt mörg undanfarin ár. „Það eru talsvert margir bændur í óða önn að ljúka seinni slætti nú þegar komið er að mánaðamótum ágúst september. Það er fremur fátíð staða miðað við síðastliðin ár, á þessum árstíma er vanalegra að bændur séu að slá í þriðja sinn,“ segir Sigurgeir sem telur að harla fáir nái því að slá þrisvar þetta sumarið.

Sjálbærir með hey

Spretta hefur verið góð og heyfengur er með ágætum, einkum frammi í firði. „Það er gleðilegt því við verðum því sjálfbær með hey fyrir veturinn, Eyfirðingar,“ segir Sigurgeir. Mikið kal var í túnum í vor, m.a. í Svarfaðardal og Hörgársveit. „Við erum sem betur fer að fá mikið magn þó það sé frekar seint á ferðinni miðað við meðalárin, en mér sýnist að ekki þurfi að leita út fyrir Eyjafjörðinn til að allir hafi úr nógu að moða.“

Komast ekki út í flögin vegna bleytu

Á þeim bæjum þar sem kal var mest freistuðu bændur þess að bjarga sér fyrir horn með grænfóðri, en ekki er ein báran stök, „þessar grænfóðurspilur eru víða svo rennaandi blautar að ekki er hægt að komast um þær. Þannig að það er alls óvíst á þessari stundu hvað verður um uppskeru af þeim.

Sigurgeir nefndi einnig að oft hefði litið betur út en nú varðandi kornuppskeru. Ágústmánuður hefði ekki verið góður en uppskera gæti bjargast ef veður yrði með betra móti í september. „Það gæti eitthvað bjargast með góðum september en heilt yfir veðja ég ekki á mikla kornuppskeru þetta haustið,“ segir hann.


Athugasemdir

Nýjast