Bæjarstjórn Akureyrar samþykkti í lok síðasta árs bann við lausagöngu katta í bænum en bannið tekur að óbreyttu gildi 1. janúar 2025.
Bannið er afar umdeilt og hefur sætt mikilli gagnrýni og stefnir í það að kattafárið mikla verði eitt af helstu kosningamálunum í sveitarstjórnarkosningunum í vor.
Í nágrannasveitarfélaginu Norðurþingi hefur slíkt bann verið við lýði árum saman og þrátt fyrir að um það séu deildar meiningar, hafa húsvískir kettir þurft að sætta sig við úrgöngubann í allan þennan tíma. Þó vissulega beri eitthvað á því að köttum gangi misjafnlega að hlýða mannanna lögum.
Öldungurinn ljúfi
Blaðamaður Vikublaðsins heimsótti inniköttinn Vin um helgina, sem mögulega er elsti köttur Húsavíkur. Vinur er 17 ára eða 84 ára gamall í kattaárum svokölluðum. Vinur hefur reyndar ekki alltaf verið inniköttur. Guðný María Waage, eigandi kattarins, flutti ásamt fjölskyldu sinni fyrir nokkrum árum frá Hafnarfirði þar sem Vinur fékk að ráfa um að vild, til Húsavíkur.
„Já hann var dæmigerður útiköttur þegar við bjuggum í Hafnarfirði,“ segir Guðný og bætir því við að það hafi gengið vel að venja Vin við nýjan og breyttan veruleika. Raunar útilokar hún ekki að Vinur geti þakkað þessum nýju aðstæðum háan aldur sinn. Enda hefur Guðný ekkert út á lausagöngubannið að setja. Hún segir það alfarið á ábyrgð gæludýraeigenda að sjá til þess að dýrunum líði vel og séu ekki öðrum til ama.
Þegar blaðamaður bankaði upp á, opnaði Guðný ásamt öðrum fjölskyldumeðlimi. Þýska fjárhundinum, Hendrix.