20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Það er fokið í hann!
Það er óhætt að segja að veðurspá hafi gengið ágætlega eftir en appelsínugul viðvörun er yfirstandandi og má búast við að hér á Akureyri og nágrenni muni blása hressilega til miðnættis en þá ætti allt að detta í dúnalogn.
Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Veðurstofu Íslands er rúmlega 13 stiga hiti á Akureyri en vindur í 14 metrum á sek. og slær í 26 metra í hviðum.
Á vef sínum biður Vegagerðin vegfarendur um að fylgjast vel með veðurspám en búast má við miklu hvassviðri síðdegis í dag þá sérstaklega á Eyjafjarðarsvæðinu á Öxnadalsheiði og í Skagafirði. Vegfarendur eru beðnir að kynna sér aðstæður áður en lagt er af stað.
Einnig er þess getið á vef Vegagerðarinnar að vetrarblæðingar séu í Öxnadal, milli Jónasarlundar og Öxnadalsheiðar, og eru ökumenn þar beðnir um að aka með gát.