Fólki misboðið yfir gjaldskrárhækkunum OH
„Dæmi eru um að viðskiptavinir Orkuveitu Húsavíkur, ekki síst fjölskyldufólk og fólk í viðkvæmri stöðu, hafi sett sig í samband við Skrifstofu stéttarfélaganna og krafist þess að Framsýn geri athugasemdir við boðaðar hækkanir á gjaldskrám orkuveitunnar um áramótin. Fólki er greinilega misboðið.,“ segir á vef Framsýnar.
„Á sama tíma og samið var um hófsamar launahækkanir upp á 3,5% sem koma eiga til framkvæmda um næstu áramót telja forsvarsmenn OH eðlilegt að hækka gjaldskrár fyrirtækisins um 5% til 7,6%,“ segir enn fremur. Formaður félagsins hefur í bréfi til OH gert alvarlegar athugasemdir við boðaðar hækkanir um leið og skorað er á veituna að draga þær til baka.
Bendir formaðurinn á að laun hækki almennt um 3,5% um næstu áramót hjá megin þorra launafólks. „Ljóst er að boðar gjaldskrárbreytingar OH munu koma afar illa við viðskiptavini orkuveitunnar, ekki síst barnafólki sem nær ekki að dekka þennan kostnaðarauka með launahækkunum 1. janúar 2025.“
Þá segir að Framsýn hafi borist ábendingar frá reiðum viðskiptavinum Orkuveitunnar sem segja hækkanir óskiljanlegar og krefjast þess að gjaldskrárbreytingar verði endurskoðaðar til lækkunar.