Eldra fólk er alls konar
Hvað vill eldra fólk og hvernig þjónustu á að veita þessum hópi, sem er fjölmennur og fer stækkandi? Svarið er að það þarf fjölbreytta og ólíka þjónustu og eldra fólk á sjálft að vera með í að móta hana. Sæmilega hraustur einstaklingur, rétt kominn á eftirlaun, þarf ekki það sama og sá sem er eldri og hrumari og áhugamálin eru ólík í þessum hópi eins og öðrum.
Heilsan er mikilvæg og það er hagur allra að fólk geti haldið haldið góðri heilsu og þreki. Þess vegna hafa Félag eldri borgara á Akureyri og öldungaráð bæjarins lagt mikla áherslu á að að boðið sé upp á góð tækifæri til heilsueflingar. Fjölbreytt og ólík eftir áhuga og getu. Heilsurækt er ekki aðeins líkamleg, það eflir líka heilsu og kemur í veg fyrir einangrun, að taka þátt í skapandi félagsstarfi, fá fræðslu, eiga kost á góðum máltíðum, viðburðum, menningu og allri nærandi samveru með öðrum.