Áform um að reisa fjölbýlishús með 200 leiguíbúðum

Séð yfir miðbæinn á Akureyri.  Mynd/Hörður Geirsson.
Séð yfir miðbæinn á Akureyri. Mynd/Hörður Geirsson.
mth@vikubladid.is

„Við vonumst til þess að bærinn skoði þetta erindi betur, það er mikill íbúðaskortur á Akureyri og því afar brýnt að brugðist verði við sem fyrst,“ segir Helgi Örn Eyþórsson verkefnastjóri hjá SSByggi en félagið hefur óskað eftir lóðum fyrir nokkur fjölbýlishús sem öll yrðu miðsvæðis á Akureyri undir 200 leiguíbúðir sem byggðar verði á næstu 5 árum.

Helgi segir að félagið fagni allri umræðu um lóða og fasteignamál, en staðan á fasteignamarkaði á Akureyri sem og reyndar víðar sé grafalvarleg. Varðandi íbúðabygginguna hyggst SSByggir sækja um stofnframlag með þessum íbúðum frá ríki og Akureyrarbæ.

Hagkvæmar íbúðir fyrir tekjulægri hópa

„Hugmyndir félagsins ganga út á að byggja, eiga og reka hagkvæmar leiguíbúðir ætlaðar tekjulægri hópum samfélagsins. Markmið félagsins er að bjóða hagkvæmustu leiguíbúðir sem finnast á almennum markaði,“ segir í bréfi félagsins til bæjarins. Einnig kemur þar fram að mikilvægt sé að lóðir undir umrædd fjölbýlishús verði miðsvæðis þannig að leigjendur geti ástundað  bíllausan lífsstíl, kjósi þeir svo. Deiliskipulag lóðanna má ekki vera mjög íþyngjandi, t.d. með kröfu um að gerður verði bílakjallari.

Félagið stefnir á að byggja vel útbúnar og vistlegar íbúðir þar sem m.a. er gert ráð fyrir sjálfvirku loftskiptikerfi með varmaendurvinnslu í öllum íbúðum. Það stuðli að heilbrigðu innilofti og lækki rekstrar- og viðhaldskostnað íbúða

SS Leiguíbúðir ehf er óhagnaðardrifið leigufélag í 100% eigu SS Byggir ehf. og hefur það undanfarna tvo áratugi byggt á annað hundrað leiguíbúða sem síðar hafa verið seldar áfram til sérhæfðra leigufélaga.

Nýjast