Traustur vinur þrátt fyrir háan aldur

Guðný María Waage ásamt dýrunum sínum. Öldungnum Vini sem hún heldur á í fanginu, þýska fjárhundinum…
Guðný María Waage ásamt dýrunum sínum. Öldungnum Vini sem hún heldur á í fanginu, þýska fjárhundinum Hendrix og unga kettinum Freddie, sem bíður þess að hrifsa völdin. Myndir/epe

Bæjarstjórn Akureyrar samþykkti í lok síðasta árs bann við lausagöngu katta í bænum en bannið tekur að óbreyttu gildi 1. janúar 2025.

Bannið er afar umdeilt og hefur sætt mikilli gagnrýni og stefnir í það að kattafárið mikla verði eitt af helstu kosningamálunum í sveitarstjórnarkosningunum í vor.

Í nágrannasveitarfélaginu Norðurþingi hefur slíkt bann verið við lýði árum saman og þrátt fyrir að um það séu deildar meiningar, hafa húsvískir kettir þurft að sætta sig við úrgöngubann í allan þennan tíma. Þó vissulega beri eitthvað á því að köttum gangi misjafnlega að hlýða mannanna lögum.

 Öldungurinn ljúfi

Blaðamaður Vikublaðsins heimsótti inniköttinn Vin um helgina, sem mögulega er elsti köttur Húsavíkur. Vinur er 17 ára eða 84 ára gamall í kattaárum svokölluðum. Vinur  hefur reyndar ekki alltaf verið inniköttur. Guðný María Waage, eigandi kattarins, flutti ásamt fjölskyldu sinni fyrir nokkrum árum frá Hafnarfirði þar sem Vinur fékk að ráfa um að vild, til Húsavíkur.

„Já hann var dæmigerður útiköttur þegar við bjuggum í Hafnarfirði,“ segir Guðný og bætir því við að það hafi gengið vel að venja Vin við nýjan og breyttan veruleika. Raunar útilokar hún ekki að Vinur geti þakkað þessum nýju aðstæðum háan aldur sinn. Enda hefur Guðný ekkert út á lausagöngubannið að setja. Hún segir það alfarið á ábyrgð gæludýraeigenda að sjá til þess að dýrunum líði vel og séu ekki öðrum til ama.  

Þegar blaðamaður bankaði upp á, opnaði Guðný ásamt öðrum fjölskyldumeðlimi. Þýska fjárhundinum, Hendrix.

 Nefndir eftir goðsögnum

Hendrix er risastór, og gæti virst ógnvekjandi fyrir einhverja en geðslag hans er afar gott og blaðamanni er strax ljóst að þarna er ljúfur risi á ferð. Aðspurð segir Guðný að heimilisdýrunum semji mjög vel og það sé Vinur sem fari með völdin, þó stærðar sinnar vegna gæti Hendrix hæglega gleypt köttinn aldraða í einum munnbita kysi hann það.

Þegar inn er komið birtist annar köttur sem heitir Freddie. Guðný segir að hann sé ársgamall og hafi verið nefndur eftir söngvaranum geðþekka, Freddie Mercury. Hendrix er vitanlega nefndur eftir gítargoðsögninni Jimmy Hendrix. Blaðamanni finnst þá augljóst að Vinur hafi fengið nafn sitt frá lagi hljómsveitarinnar íslensku, Upplyftingu sem heitir Traustur vinur og stingur upp á því í misheppnaðri fyndni. Guðný gefur lítið fyrir það en segir kattaröldunginn vissulega vera traustan vin.

Vinur kúrir í körfu sinni og sýnir blaðamanni lítinn áhuga þegar hann ber að garði. Hendrix og Freddie eru aftur á móti mjög forvitnir um þennan ókunnuga gest og keppast um athygli hans og klapp.

Glæsileg útiaðstaða

Hendrix tekur það svo að sér að sýna ókunnuga gestinum útiaðstöðuna sem Guðný og maður hennar, Hermann Örn Sigurðsson útbjuggu fyrir kettina og sjá má á meðfylgjandi mynd. Vinur var beðinn um það sama en hafði engan áhuga, hann vildi frekar lúra inni í hlýjunni.

KAtta úti

Freddie tók að sér að sýna blaðamanni útiaðstöðuna sem er hin veglegasta.

 Aðspurð segir Guðný að hún geti ekki staðfest með óyggjandi hætti að Vinur væri elsti kötturinn í bænum en þó benti flest til þess.  „Ég hef spurst fyrir um það á spjallsvæðum Húsvíkinga á Facebook og þar hefur engin gefið sig fram um að eiga eldri kött. Ég er líka búin að spyrja marga sem ég veit að eru með gamla ketti, en Vinur er eldri en þeir allir,“ segir hún og bætir við að þrátt fyrir háan aldur sé Vinur við sæmilega heilsu, þó vissulega sé farið að hægast á honum. „Hann sefur mjög mikið nú orðið.“

Þrátt fyrir að Vinur hafi sífellt hægar um sig, þá er goggunarröðin alveg á hreinu meðal dýranna á heimilinu. Það er Vinur sem ræður. Freddie er reyndar farinn að láta reyna á mörkin og færir sig sífellt meira upp á skaftið. „Hann er að láta reyna á hver hefur völdin, en enn sem komið er hefur Vinur ekki látið þau frá sér,“ segir Guðný og bætir við að fjölskyldan hafi fengið sér Freddie þegar þau héldu að Vinur væri að gefa upp öndina

„Við fengum okkur þennann af því að við sáum fram á það að Vinur ætti ekki langt eftir ólifað. Kannski til að minnka höggið og draga úr sorginni þegar sá gamli kveður,“ segir Guðný að lokum.

Nýjast