Fátækt: líka á Akureyri
Það kannast líklega öll við það að vera blönk, að eiga ekki fyrir því sem okkur langar í. Færri, en því miður allt of mörg þekkja einnig að vera fátæk, að eiga ekki fyrir því sem þarf til að lifa mannsæmandi lífi með reisn. Sú virðist vera raunin hjá allt of mörgum í okkar fallega litla sveitarfélagi. Það er einfaldlega ekki ásættanlegt.
Í hópnum „Matargjafir á Akureyri og nágrenni“ á Facebook kom fram í gær að beiðnir um aðstoð streymi inn. Bendir stjórnandi hópsins á að margir foreldrar eigi ekki nesti fyrir börnin sín til að taka með í skólann og að ástandið sé að snarversna. Ríkisvaldið ber að sjálfsögðu mikla ábyrgð á þessari stöðu, hins vegar geta sveitarfélög ekki látið eins og þetta komi þeim ekki við.