Brynja leigufélag fær lóð við Dvergaholt 1 Fjölga íbúðum úr 6 í 12

Mynd Vikublaðið
Mynd Vikublaðið

Skipulagsráð Akureyrarbæjar hefur samþykkt að úthluta lóðinni númer 1 við Dvergaholt til Brynju leigufélags ses. sem sótti um hana nýlega. Samþykkt var að úthluta lóðinni til félagsins án undangenginnar auglýsingar.

Jafnframt óskaði Brynja eftir því að fá að byggja 12 íbúðir á lóðinni í stað 6 eins og gildandi deiliskipulag segir til um. Horft er til þess að byggja blöndu af 2ja-, 3ja- og 4ra herbergja íbúðum sem er ætlað að koma til móts við þá þörf sem uppi er varðandi leiguíbúðir fyrir öryrkja á Akureyri. Húsið verður á tveimur hæðum og hannað með þarfir öryrkja í huga, m.a. verður lyfta í húsinu.

Ráðið samþykkti einnig að skilmálum lóðarinnar verði breytt á þann veg að hún verði framvegis ekki ætluð fyrir búsetukjarna. Ekki var talin þörf á að grenndarkynna tillöguna, enda um óverulega breytingu á deiliskipulagi að ræða.

Brynja leigufélag og Akureyrarbæ undirrituðu fyrr í haust viljayfirlýsingu um að félagið byggi allt að 32 íbúðir, ætlaðar öryrkjum á Akureyri á næstu fimm árum. Þetta verkefni skilar félaginu vel áleiðis.

 

Nýjast