Það er stundum erfitt að átta sig á því hvað mönnum gengur til. Hér er ég að vitna til þess að þingmenn Sjálfstæðisflokksins telja það vera forgangsmál á Alþingi að brjóta niður íslenska verkalýðshreyfingu, sama hvað það kostar. Það er grátbroslegt að hugsa til þess að þingmennirnir telja að með því að skerða aðgengi launafólks að stéttarfélögum efli það félögin og vitna þeir til Norðurlandanna hvað það varðar.
Nú vill svo til að ég þekki ágætlega til þessara mála í okkar nágrannalöndum, þar sem ég sat í stjórn Nordisk Union um tíma, en það eru samtök verkalýðsfélaga í matvælaframleiðslu á Norðurlöndunum. Þar hafa hægri stjórnir lengi lagt sig fram um að veikja verkalýðshreyfinguna, enda gerðar út af auðvaldinu í viðkomandi löndum líkt og á Íslandi. Því miður hefur þessum aðilum tekist það ætlunarverk sitt. Erlendum starfsmönnum sem komið hafa til starfa í Skandinavíu hefur markvisst verið haldið utan stéttarfélaga svo þeir geti ekki sótt kjarasamningsbundinn rétt sinn sé brotið á þeim sem er daglegt brauð. Aðbúnaður þessara starfsmanna hefur verið skelfilegur auk þess sem launakjörin hafa verið langt fyrir neðan skráð lágmarkslaun. Þá eru dæmi um að vegabréfum erlendra starfsmanna hafi verið haldið eftir hjá eigendum fyrirtækjanna til að koma í veg fyrir að þeir yfirgæfu vinnustaðinn án samþykkis yfirmanna. Því til viðbótar hefur mafían í austantjaldsríkjunum verið að gera út verkamenn til starfa í Skandinavíu. Verkalýðshreyfingin hefur átt erfitt með að mæta þessum veruleika vegna skorts á valdheimildum. Þetta er umhverfið sem blasir við okkur takist þingmönnum Sjálfstæðisflokksins að brjóta niður öfluga verkalýðshreyfingu á Íslandi. Verkalýðshreyfingu sem flestar þjóðir heims öfunda okkar af enda hefur hreyfingin komið að mörgum framfaramálum fyrir íslenska alþýðu, sem við getum verið stolt af og rúmlega það.