6. nóvember - 13. nóvember - Tbl 45
Hollvinir auka framlag í afþreyingarsjóð
Hollvinasamtök Dalbæjar hafa starfað í þrjú ár en tilgangur samtakanna er að styðja við Dalbæ Dvalarheimili aldraðra í Dalvíkurbyggð með framlögum til tækjakaupa, afþreyingar og ýmisskonar búnaðar. Hver félagsmaður greiðir einu sinni á ári 5000 kr sem renna óskiptar í sjóðinn. Félagar eru nú u.þ.b. 150 talsins.
Á s.l. ári var stofnaður afþreyingarsjóður sem nýttur er til ýmisskonar uppbrota, jólakósýkvöld, pizzakvöld, aðgengi að jólatónleikum í streymi og fleira. Afþreyingarsjóðurinn hefur vakið mikla lukku og sýnir sig að það er hægt að styrkja íbúana á marga vegu. Afþreying hefur sannarlega jákvæð áhrif á andlega líðan og vill stjórn Hollvinasamtakanna leggja áherslu á að hlúa enn betur að andlegri líðan íbúa Dalbæjar á næstunni með ýmsum hætti í samráði við stjórnendur Dalbæjar. Á síðasta aðalfundi félagsins samþykkti stjórn að auka framlag í afþreyingarsjóðinn, til þess að geta boðið upp á frekari afþreyingu/skemmtun, sem er þá í takt við nýjar áðurnefndar áherslur.
Hollvinasamtökin hafa keypt þrekhjól og sjónvarp til að nota með Motiview hjólaforritinu sem nýtist til að taka þátt í keppnum og íbúar geta hjólað víða um heiminn og Hollvinasamtökin sjá um ásamt Dalbæ að greiða áskrift af hjólaforritinu.
Hollvinasamtökin hafa einnig fært Dalbæ Carevo sturtubekk, en hann gengur undir nafninu bláa lónið. Tekur bekkurinn við af eldri sturtubekk sem var orðinn úreldur og kominn vel til ára sinna. Bláa lónið nýtist afar vel t.d til að baða þá em eru rúmliggjandi og við komu þess batnaði vinnuaðstaða starfsfólkins til muna. Heildarkostnaður gjafarinnar er um 750 þúsund krónur.
Ert þú félagi ? Ef ekki þá ertu velkomin í Hollvinsamtökin og við sem að þessu stöndum er miklu meiri en sannfærð um að það er vandfundin betri leið til að láta gott af sér leiða fyrir 5.000 kr á ári. Á heimasíðu Dalbæjar er hlekkur fyrir Hollvinsamtökin.
Stjórn samtakanna skipa
Rúna Kristín Sigurðardóttir formaður
Júlíus Júlíusson varaformaður
Dagbjört Sigurpálsdóttir ritari
Kristín Svava Stefánsdóttir gjaldkeri
Meðstjórnendur
Arnar Símonarson
Helga Mattína Björnsdóttir
Eva Björg Guðmundsdóttir
Þorvaldur Kristjánsson
Oddur Bjarni Þorkelsson