Kosningaloforð Sjálfstæðisflokksins á Akureyri um gjaldfrjálsa leikskóla hefur í mínum huga aðeins tvær skýringar, annað hvort algjöra vanþekkingu á rekstri sveitarfélagsins eða þar að baki er vísvitandi ákvörðun um að blekkja kjósendur í aðdraganda kosninga. Það er merkilegt nú að fylgjast með oddvita Sjálfstæðisflokksins á Akureyri í fjölmiðlum kenna samstarfsflokkum sínum í meirihluta í bæjarstjórnar, L-listanum og Miðflokknum um að það sé ekki hægt að efna kosningaloforð þeirra. Heiðarlegra væri að segja það sem ég tel nokkuð víst að sé rétt – Sjálfstæðisflokkurinn vill það ekki einu sinni sjálfur. Sem dæmi þá er mun líklegra að nú muni koma fram þrýstingur innan úr Sjálfstæðisflokknum fyrir seinni umræðu um fjárhagsáætlun, að lækka álögur, þá sérstaklega fasteignaskatt, fremur en að lækka raunkostnað foreldra á leikskólagjöldum.