,,Karíus og Baktus fá góða dóma frá okkur og mælum við með að fjölskyldufólk kíki á sýningu í Freyvangsleikhúsinu".

Karíus og Baktus meðan allt lék í lyndi í tönnunum hans Jens        Mynd Freyvangsleikhúsið
Karíus og Baktus meðan allt lék í lyndi í tönnunum hans Jens Mynd Freyvangsleikhúsið

Við fjölskyldan brunuðum inn í Freyvang síðastliðinn sunnudag til að sjá hið sígilda leikrit Karíus og Baktus eftir Torbjörn Egner. Okkur fullorðna fólkinu finnst alltaf spennandi að sjá leikrit sem við ólumst upp við, yfirleitt í gegnum hlustun á plötur eða kasettur, sælla minningar. Þegar svona perlur eru settar upp setjum við, fullorðna fólkið, aðeins meiri kröfur á sýningarnar en ella, því við þykjumst vita allt um það hvernig leikritið á að vera og á ekki að vera, kunnum textann jafnvel utanbókar og getum sungið með flestum lögunum. Því kemur maður inn með ákveðnar væntingar á svona sýningu og vonast til að endurupplifa ljúfar æskuminningar.

Þegar við komum inn í Freyvang tóku á móti okkur ljúfir jólatónar í boði hljómsveit hússins. Hljómsveitin samanstendur af Reyni sem spilar á píanó og Eiríki sem leikur á bassa. Alltaf er nú jafn hlýlegt og heimilislegt að koma inn í salinn í Freyvangi, en þó hann sé lítill, er hann gæddur þeim kostum að hleypa áhorfandanum nær sýningunni, sem hentar sérstaklega vel fyrir barnasýningar.

Þá að sýningunni sjálfri. Tónlistin breyttist úr jólatónum og í Karíusar og Baktusar stefið og inn kom sögumaðurinn, leikinn af Jóni Friðriki Benónýssyni. Sögumaðurinn með sína hlýlegu rödd var skemmtilegur, talaði til barnanna í salnum og hélt athygli þeirra óskiptri. Karíus og Baktus, leiknir af Ormi Guðjónssyni og Eyþóri Daða Eyþórssyni voru ekki síðri, afskaplega skemmtilegir og í raun líkir upprunalegu karakterunum. Leikurinn og söngurinn hjá þeim var flottur og manni fannst á tímum að maður væri að hlusta á gömlu góðu plötuna. Örlitlar nútímauppfærslur á nammitegundum og gosdrykkjum í söngtextanum hittu í mark og fengu mann til að brosa. Leikmyndin, munnurinn á Jens, var stórsniðug og sýnir enn og aftur hvað aðstandendur Freyvangsleikhússins eru sniðug í að gera mikið úr litlu með ýmsum snjöllum lausnum. Í lok sýningarinnar var hægt að hitta þá félaga og taka af sér mynd með þeim ásamt því að fá gefins tannbursta og tannkrem til að bursta burtu nammið sem var japplað á í hléinu.

Alla heimferðina var leiksýningin rædd og bæði börnin ánægð með sýninguna. Við vorum sammála um að framsetningin hefði verið sniðug, hvað tennurnar - sjálf leikmyndin hefði verið flott og tannlæknaborinn sniðugur. Einnig fannst okkur það kostur að hafa sýningar sem henta yngri börnum vel hvað varðar lengd, en sýningartíminn var innan við klukkustund, sem er kostur fyrir litla kroppa sem ekki geta setið lengi kyrr.

Karíus og Baktus fá góða dóma frá okkur og mælum við með að fjölskyldufólk kíki á sýningu í Freyvangsleikhúsinu. Sýningin var bæði sniðug og skemmtileg og hélt börnum og fullorðnum við efnið allan tímann. Sýningin stóðst væntingar foreldranna, sem náðu í augnablik að upplifa áhyggjulausa barnæskuna á ný.

 

Nýjast